SSA: Lögbanni á akstur Sternu fylgt eftir með skaðabótamáli?

sterna_logo.jpg

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er reiðubúið að fylgja eftir lögbanni á áætlunarakstur Sterna milli Hafnar og Egilsstaða með skaðabótamáli verði aksturinn ekki stöðvaður. Framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins hefur lýst því yfir að það ætli að halda áfram að keyra.

 

Valdimar O. Hermannsson, formaður SSA, segir samtökin hafa margítrekað það við sýslumannsembættin á Höfn og Eskifirði að þau beiti sér í því að framfylgja lögbanninu.

„Við höfum jafnframt bent á þau augljósu brot sem felast í því að fara ekki eftir lögbanninu, sem er refsivert og varðar við hegningarlög, og mun því verða fylgt eftir með skaðabótamáli, verði aksturinn ekki stöðvaður.“ sagði Valdimar í samtali við Agl.is í dag.

Lögbann var fengið á aksturinn fyrir verslunarmannahelgi. SSA tók í vetur við úthlutun sérleyfa fyrir áætlunarakstur á leiðinni og fengu Hópferðabílar Akureyrar það eftir útboð. 

Framkvæmdastjóri Bíla og fókls, sem ekur hópferðabílum undir nafni Sternu, sagði í samtali við Austurgluggann í síðustu viku að fyrirtækið muni áfram sinna hringmiðafarþegum sínum á Austurlandi.

Hann heldur því einnig fram að lögbannið nái aðeins til Sternu, ekki Bíla og fólks. Því hafnar Valdimar. „Það þýðir ekki að reyna að skýla sér á bak við þann „orðhengilshátt“ að Bílar og fólk (STERNA) séu ekki skyldir aðilar, enda koma bæði nöfnin fram í málsskjölum.“

Á vef fyrirtækisins, sterna.is, segir að Bíla og fólk sjái „alvarið um sérleyfisakstur undir nafni Sterna. Sérleyfið tekur yfir áætlunarakstur allt frá Reykjavík á vesturland, Norður að Akureyri og Suðurland austur að Egilstöðum.“ Þar kemur einnig fram að Sterna sé skrásett vörumerki Bíla og fólks ehf. og öll þjónusta fyrirtækisins sé rekin undir því merki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.