Sprunga hefur lengst en engin aukin hætta talin á ferðum

Sprunga, sem gengur út frá farvegi stóru skriðunnar er féll á Seyðisfjörð þann 18. desember, hefur lengst. Engin hreyfing virðist þó vera á jarðveginum í kringum hana og því talið óhætt að halda áfram vinnu á skriðusvæðinu.

Það var um klukkan hálf tólf sem ábendingar bárust um breytingu á svæðinu. Í kjölfarið var ákveðið að hætta allri vinnu á svæðinu auk þess sem starfssvæði Síldarvinnslunnar var rýmt.

Esther Hlíðar Jensen, sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofunnar, segir að við skoðun á hlíðinni hafi vaknað grunsemdir um breytingar og gengið í að taka myndir og bera saman við eldri myndir. Á meðan hafi verið talið rétt að rýma svæðið.

Með skoðun á myndunum hefur komið í ljós að stutt sprunga, sem gengur út frá um miðju skriðusárinu, hefur lengst og leitað niður á við.

Hins vegar sýni mælitæki enga hreyfingu á hlíðinni niður á við, en þeim hefur verið fjölgað töluvert síðustu vikur. Út frá því er ekki talið um að neina aukna hættu sé að ræða og hefur Veðurstofan því gefið út að óhætt sé að halda hreinsunarvinnunni áfram. Ítarlega hefur verið fylgst með svæðinu síðustu vikur og þannig verður það áfram.

„Þetta er ekkert sem hefur gerst hratt heldur hægt og rólega. Það er viðbúið að það sé smá hreyfing á svæðinu en við sjáum engar vísbendingar um að svæðið sé losaralegra en áður eða á því aukið álag. Við tökum hins vegar allar ábendingar mjög alvarlega og þess vegna var vinnan stöðvuð meðan við vorum að átta okkur á hvað væri að gerast.“

Sérfræðingar frá ofanflóðadeildinni eru nú staddir eystra við að skoða bæði breytingarnar nú sem það sem gerðist um miðjan desember.

Búist er við talsverði rigningu á laugardag. Esther segir ítarlega fylgst með veðurspám og hreyfingum í fjallinu og út frá slíkum upplýsingum verði staðan metin á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.