Spilltur borgarstjóri, óhæf lögregla og hurðum skellt í Norðfirði.

Leikfélag Norðfjarðar frumsýnir farsann Óþarfa Offarsi á laugardaginn. Þau hafa unnið hörðum höndum undanfarnar vikur og lofa hlátri og mikilli skemmtun.  Verkið er sýnt í Egilsbúð í Neskaupstað. 

 

Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, formaður Leikfélags Norðfjarðar, segir að verkið hafi verið of gott til að sleppa því og því ákvað leikfélagið að setja það upp. 

„Farsar geta einfaldlega verið svo sjúklega skemmtilegir. Bæði fyrir leikhópinn og leikhúsgesti. Og þessi er það. Við höfum verið með farsa síðustu ár. En við reynum að setja upp barnasýningu á móti, annað hvert ár,“ segir Þórfríður

Farsi er gamanleikur sem miðar að því að skemmta áhorfendum í gegnum aðstæður sem eru verulega ýkta, óhóflegar og mjög ósennilegar. Atburðarásin er oft hröð, mörgum hurðum skellt og flækjustigið sífellt meira og meira þangað til að enginn skilur neitt í neinu, allra síst sögupersónurnar.

„Þetta á mjög vel við. Þetta er tildæmis sjö hurða farsi og söguþráðurinn auðvitað ýktur en það er eitt af því sem gerir þetta svo skemmtilegt. Aðstæður sem koma upp geta verið svo pínlegar og ólíklega og um leið svo fyndnar,“ útskýrir hún. 

Hún segir að söguþráðurinn sé eitthvað á þá leið að lögreglan í bænum undirbýr gildru á móteli til að standa spilltan borgarstjóra að verki. Lögreglumennirnir tveir eru auðvitað ekki þeir allra hæfustu. Samband annars þeirra við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi einfaldar svo ekki framvinduna. Við þetta bætist óöruggur öryggisvörður úr ráðhúsinu, illskiljanlegur leigumorðingi og elskuleg borgarstjórafrú. 

Hún segir að það gleðji stjórn leikfélagsins mikið að sjá hversu margir vildu vera með og hversu margir nýir taka þátt.

Ég held að þetta sé í fyrsta skipti þar sem nánast öll stjórnin er ekki uppi á sviði eða að leikstýra. Sem er bara geggjað. Vonandi er það eitthvað sem er komið til að vera. Því þetta er svo gefandi og hópurinn er mjög skemmtilegur,“ segir hún. 

„Það eru til dæmis  þrír leikarar sem eru að stíga sín fyrstu skref á sviði með leikfélaginu og þau eru öll að standa sig sjúklega vel,“ bætir hún við og hvetur fólk að mæta og hlæja. 

Nánari upplýsingar má finna á facebook síðu Leikfélags Norðfjarðar. 

 

Myndin er tekin af æfingu og er því ekki endanleg heimild um útkomu.  Mynd: Leikfélag Norðfjarðar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.