Spennir fyrir Reyðarfjörð úti

Rafmagnslaust hefur verið á Reyðarfirði frá því fyrir klukkan átta í morgun eftir að straumur fór af spenni í tengivirki á Stuðlum. Enn er unnið að nánari greiningu bilunarinnar.

Rafmagnið fór af um klukkan 7:40 í morgun. Rofi fyrir spenni sem ræður yfir Reyðarfirði sló þá út. Er þessa vegna Reyðarfjörður, þar með talin önnur starfsemi í Mjóeyrarhöfn en álverið, án rafmagns.

Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt Rarik er verið að greina nánar hvað hafi orsakað útleysinguna. Samkvæmt tilkynningu á vef Rarik er von á frekari upplýsingum um klukkan tíu en þar fengust þær upplýsingar upp úr klukkan níu að ekkert lægi fyrir um hve langan tíma tæki að leysa málin.

Gul viðvörun tók gildi fyrir Austfirði í gærkvöldi en enn sem komið er hafa svartsýnustu veðurspár ekki ræst. Engu að síður er nú farið að bæta í vind á Reyðarfirði sem vart auðveldar viðgerð auk þess sem leiðindafærð er úr flestum áttum til staðarins.

Tengivirkið er innarlega í firðinum og þurftu starfsmenn Rarik að brjótast þangað í erfiðri færð í morgun en komust þó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.