Sparisjóðurinn ekki seldur: Ekkert boð nógu gott

sparisjodur_norrdfjardar.jpgHætt hefur verið sölu Sparisjóðs Norðfjarðar því ekki bárust viðunandi tilboð. Útibúinu á Reyðarfirði verður lokað í vor til að treysta reksturinn. Fimm einstaklingar missa vinnuna við það.

 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn sjóðsins í dag. Um miðjan ágúst var ákveðið á stofnfjáreigendafundi að auglýsa allt stofnféð til sölu í opnu söluferli. Ráðgjafafyrirtækið HF Verðbréf hafði umsjón með ferlinu. Auglýst var í byrjun september og tilboðin bárust í byrjun nóvember.

„Síðan þá hafa farið fram viðræður við bjóðendur. Stjórn Sparisjóðsins hefur nú, í samráði við stærstu eigendur hans, tekið ákvörðun um að hafna öllum tilboðunum. Það er mat stjórnar og eigenda að tilboðin séu of lág og ekki í samræmi við væntingar.

Þar sem ekki verður af sölunni hefur stjórn sjóðsins ákveðið hagræðingar aðgerðir til að tryggja rekstur hans. Í tilkynningunni er sagt að aðgerðirnar séu „margþættar“ án þess að það sé nánar útskýrt. Sú stærsta er lokun útibúsins á Reyðarfirði frá og með 1. apríl og uppsögn fimm starfsmanna.

„Eiginfjárstaða Sparisjóðs Norðfjarðar er traust en vegna ónógrar eftirspurnar eftir lánsfé og síaukinnar skattlagningar á fjármálafyrirtæki telur stjórn sjóðsins óhjákvæmilegt að grípa til fyrrgreindra aðgerða.“

Boða á til stofnfjáreigendafundar í janúar þar sem þeim verður kynnt ákvörðunin nánar og aðdragandi hennar. Stærstu eigendur Sparisjóðsins eru: Bankasýsla ríkisins, Fjarðabyggð og Samvinnufélag Útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.