Sparisjóður Norðfjarðar til sölu: Dýrt kerfi eftir fall stóru sjóðanna

sparisjodur_norrdfjardar.jpgSparisjóður Norðfjarðar er til sölu. Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á stofnfjárhafafundi fyrir skemmstu. Stjórnarformaður sjóðsins segir sparisjóðakerfið hafa orðið of dýrt eftir að stærstu sparisjóðirnir drógu sig út úr samstarfinu.

 

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans. „Sparisjóðirnir í landinu hafa átt með sér samstarf um ýmis málefni, til dæmis rekstur tölvukerfa, markaðsmál og vöruþróun. Eftir að stóru sparisjóðirnir eins t.d. og Sparisjóður Keflavíkur, Byr og SPRON, hafa horfið úr þessu samstarfi eiga þeir sjóðir sem eftir eru, sem flestir eru litlir sjóðir, erfitt með að standa undir þessum sameiginlega kostnaði,“ segir Jón Einar Marteinsson, stjórnarformaður sjóðsins.

Hann segir stjórn sjóðsins ekki hafa talið það skila nægilegri hagræðinu að sameina alla þá sparisjóði sem eftir eru í einn. „Við teljum að hagsmunum okkar sé best borgið með því að Sparisjóðurinn sameinist stærra fjármálafyrirtæki í samskonar rekstri. Þess vegna lögðum við fram þessa tillögu.“

Gert er ráð fyrir að söluferlið taki um tvo mánuði. Að því loknu verður boðað aftur til stofnfjárhafafundar þar sem stofnfjárhafar taka endanlega afstöðu til mögulegra tilboða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.