Mikilli snjókomu spáð um helgina

Útlit er fyrir mikla úrkomu á norðanverðum Austfjörðum frá því seint í kvöld og fram til sunnudags og tilheyrandi ófærð á fjallvegum. Starfsmenn Landsnets fylgjast með stöðunni en þeir hafa síðustu daga unnið að viðgerð á Fljótsdalslínu.

„Þið eigið von á miklum snjó, sérstaklega til fjalla á norðanverðum Austfjörðum svo sem Norðfirði, Seyðisfirði og Borgarfirði,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku.

Útlit er fyrir að úrkoman verði hvað mest á Seyðisfirði, þar er spáð hátt í 200 mm úrkomu fram á sunnudag, um 70 mm á sólarhring.

„Það koma skil upp að landinu seint í kvöld. Eftir éljagang dagsins byrjar samfelld hríð snemma í nótt og vindurinn vex á morgun upp í 18-23 m/s storm sem verður almenn á Austurlandi.“

Ófærð á fjallvegum

Einar segir að áhrifin verði misjöfn eftir svæðum. Á Fljótsdalshéraði sé til dæmis líklegt að bleytusnjór falli og svo gæti einnig verið víðar á láglendi. Á fjallvegum má búast þó búast við mikilli snjókomu og því ófærð.

Nokkur munur er á spám Bliku, sem spáir meiri úrkomu, heldur en Veðurstofunnar eða Belgings. „Ef horft er á stóru myndina þá sýna spákortin mjög mikla úrkomu í fjórðungnum. Hún safnast misjafnlega á staði og fjöll, það veltur á hvernig vindáttin hittir á.“

Útlit er fyrir að Suðurfirðirnir sleppi betur hvað úrkomuna varðar. Frá Fáskrúðsfirði og suður úr verður bæði minni úrkoma og hlýrra.

Einar segir að stytta muni upp þegar líður á sunnudag. Frekari él er í spákortunum fyrir bæði Þorláksmessu og aðfangadag en veðrið verði mun skaplegra en það sem spáð er um helgina.

Viðgerð við erfiðar aðstæður

Snjókomunni fylgir líka ísingarhætta á raflínum. „Það eru viðvarandi skýjaísingar á raflínur. Mesta hættan er á Hallormsstaðarhálsi svo er það línan yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar, Seyðisfjarðarlína og Eskifjarðarlína.“

Hjá Landsneti er verið að kortleggja hvar hætta sé á vandræðum miðað við það veður sem spáð er. Sérstök ísingarvöktun verður á Fljótsdalslínu 3, sem flytur rafmagn í álverið á Reyðarfirði, þar sem ísingarveðurspá er fyrir Hallormsstaðarháls.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi, segir að Landsnet hafi aldrei verið með jafn marga starfsmenn á Austurlandi og nú. Þeir hafa unnið að viðgerð á Fljótsdalslínu 4, sem einnig flytur rafmagn til álversins, sem bilaði á þriðjudag.

Viðgerðarefni kom í gær og viðgerð hófst í gærkvöldi og stóð fram eftir nóttu. Áfram verður haldið í dag og er gert ráð fyrir að henni ljúki í kvöld. Steinunn segir aðstæður hins vegar erfiðar og því gæti viðgerð dregist til morguns.

Þá hefur ofanflóðadeild Veðurstofunnar hækkað snjóflóðaspá sína fyrir Austfirði í mikla hættu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.