Sóttvarnir til fyrirmyndar við tökur á Ófærð 3 á Seyðisfirði

Heimamenn á Seyðisfirði telja að sóttvarnir sjónvarpsfólksins sem stóð í upptökum fyrir þáttaröðina Ófærð 3 hafi verið til fyrirmyndar. Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir að ítarlega hafi verið farið yfir sóttvarnir með sjónvarpsfólkinu. Bæði áður en hópurinn kom og einnig eftir að hann var kominn til bæjarins.

„Við vorum ekki með sérstakt eftirlit með þessum hópi en fengum ábendingar í byrjun um lítilsháttar atriði sem voru löguð strax,“ segir Krstján Ólafur. „Annars tel ég að þetta hafi gengið mjög vel.“

Á vefsíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar segir..."Að gefnu tilefni er vakin athygli á því að sá hópur fólks sem er staddur á Seyðisfirði vegna upptöku á Ófærð 3, framfylgir öllum ströngustu reglum varðandi covid-19. Hópurinn, sem var allur skimaður áður en hann kom, er með öll tilskilin leyfi fyrir komu sinni og upptökum. Grant er fylgst með öllum, til að mynda eru einstaklingar hitamældir daglega.

Sjónvarpsfólkið, undir stjórn Baltasar Kormáks leikstjóra, taldi um 70 manns í heildina. Nokkrir íbúa Seyðisfjarðar fengu hlutverk sem „statistar“ í upptökunum í gærdag. Upptökum lauk seint um daginn og sjónvarpsfólkið kvaddi Seyðisfjörð í gærkvöldi.

Morð í sértrúarsöfnuði

Á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er stutt kynning á Ófærð 3. Þar segir: „Þegar hrottalegt morð er framið á afskekktu landi sértrúarsafnaðar norður í landi, fær lögreglumaðurinn Andri óvænt tækifæri til að bæta fyrr gamlar misgjörðir í starfi, sem hafa fylgt honum eins og skuggi árum saman.“

Hvað hinar þáttaraðirnar tvær varðar þá hófst Ófærðarævintýri smábæjarlögreglustjórans Andra Ólafssonar í fyrstu þáttaröð þegar fiskimenn drógu líkamsleifar upp úr sjónum. Fljótlega kemur í ljós að morðingi gengur laus í bænum og hætt við að fleiri týni tölunni á meðan veðurofsi og snjóstormur einangra bæinn frá umheiminum. Andri leysir málið sem reynist eiga rætur í gömlum leyndarmálum þorpsbúa og pólitískri spillingu.

Í annarri þáttaröð blandast meðal annars þjóðernissinnaðir umhverfisverndarsinnar í stóriðjupólitíkina í bænum. Andri þarf að taka á honum stóra sínum þegar að því er virðist efnilegur raðmorðingi gengur svo vasklega fram að lífi og limum jafnvel lögreglufólks og unglingsdóttur Andra er stofnað í stórhættu.

Mynd: Ruv.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.