Sóttu á fjórða tug manna upp á Möðrudalsöræfi

Félagar í björgunarsveitunum Jökli og Vopna sóttu í gærkvöldi á fjórða tug ferðamanna sem treystu sér ekki lengra á bílum sínum.

„Það var hvasst, hált og ekkert skyggni. Fyrir Íslendinga voru þetta ekki svo slæmar aðstæður en þetta voru reynslulitlir ferðamenn sem varla hafa séð svona veður,“ segir Adam Eiður Óttarsson, félagi í Jökli.

Hann var meðal félaga í sveitinni sem fóru af stað klukkan hálf sjö í gærkvöldi þegar útkallið barst. Þorri fólksins var í fjórum átta manna bílum í Langadal en einnig voru teknir upp farþegar úr bíl sem hafði orðið eldsneytislaus skammt frá Vopnafjarðarafleggjaranum, alls 36 manns.

Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði voru fyrstir á staðinn og voru búnir að snúa bílunum við þegar Héraðsbúarnir komu á staðinn. Þeir tóku við bílunum og fylgdu þeim í halarófu niður í Egilsstaði. Snjóruðningsbíll var skammt á undan hópnum og tryggði að vegurinn væri hreinn.

Adam Eiður segi að leiðin í Egilsstaði hafi sóst vel, en þangað var hópurinn kominn um klukkan ellefu. Ferðafólkið átti bókaða gistingu á Mývatni en gat fengið henni breytt.

Vert er að vekja athygli á að gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland og Austfirði en veðurfræðingar spá hvassviðri og mikilli snjókomu, einkum til fjalla, frá því seint í kvöld og fram á sunnudag. Almannavarnir fylgjast með þróun mála í ljósi úrkomuspárinnar, en ekki er sérstök vakt á þessu stigi.

Frá vettvangi í gærkvöldi. Mynd: Adam Eiður Óttarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.