Sorphirða viku á eftir áætlun í Fjarðabyggð

Mikið fannfergi hefur víða valdið seinkunum á sorphirðu á Austurlandi undanfarinn mánuð. Í Fjarðabyggð er vonast til að seinkanir síðustu vikna verði unnar upp í næstu viku en annars staðar er sorphirða nokkurn vegin á áætlun.

Sorphirðunni tók að seinka um miðjan síðasta mánuð þegar fór að snjóa. Mikil snjókoma bæði síðustu dagana fyrir jól, sem og milli jóla og nýárs og þá í bland við frídaga og mikið sorp, bjó til halda sem tíma hefur tekið að vinna upp.

Gunnar Þórir Þjóðólfsson, hjá Íslenska gámafélaginu, viðurkennir að mjög erfitt ástand hafi skapast um hátíðarnar en bætir við að hratt hafi gengið að vinna upp þær seinkanir í byrjun janúar. Meðal annars hafi verið kallað til auka starfsfólk til að vinna upp tafir hjá félaginu sem sér um sorphirðu í Múlaþingi og Fljótsdal. „Þetta hefur verið þungt síðan um miðjan desember, janúar hefur verið frekar strembinn,“ segir hann.

Ný sending af snjó gæti tafið

Snjókoma hefur valdið ófærð í þessari viku, Vatnsskarð og Fjarðarheiði lokuðust í morgun. Gunnar segir að viðbúið sé að sorphirða tefjist eitthvað í þessari viku vegna þess. Eins og oft sé gáð til veðurs að kvöldi eða morgni og metið hvort vænlegt sé til árangurs að fara af stað í sorphirðingu eða bíða betra færis daginn eftir.

Á Vopnafirði sér Steiney um sorphirðuna. Þar er fyrirkomulag sorphirðunnar með öðrum hætti. Eyjólfur Sigurðsson hjá Steiney segir að einu sinni sé búið að sækja sorp eftir áramót og hafi það gengið samkvæmt áætlun. Önnur ferð sé farin þessa vikuna. Hún sé að mestu á áætlun þótt viðbúið sé að einhver seinkunn gæti orðið.

Vonast til að vinna upp seinkunn

Í Fjarðabyggð myndaðist hali í kringum jólin sem illa hefur gengið að vinna upp. „Ófærð og veður, sérstaklega um jólin, töfðu sorphirðu mjög. Síðan hjálpar ekki til að það hafi verið jól þegar úrgangur heimila er hvað mestur,“ útskýrir Haraldur L. Haraldsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar.

Sem stendur er sorphirða þar viku á eftir áætlun. Samkvæmt henni ætti verið að tæma græna tunnu í vikunni en þess í stað verður sú brúna sótt. Það gengur yfirleitt fljótt þannig vonast er til að sorphirða þar verði komin á rétt ról í næstu viku.

Mikilvægt að moka frá tunnunum

Viðmælendur um sorphirðu benda á að mikilvægt er að íbúar tryggi gott aðgengi að ruslatunnum, meðal annars að mokað sé frá þeim. „Þessi aðgengismál eru okkur efst í huga. Það er mikilvægt að þau séu í lagi, bæði til að flýta fyrir en ekki síður þannig að hægt sé að tæma tunnurnar.“

Í samningum um sorphirðu er kveðið á um að íbúar beri ábyrgð á að tryggja aðgengið. Gunnar segir þó að starfsfólk gámafélagsins gangi oft lengra en þau ákveði kveði á um til að geta sótt sorpið. Stundum sé aðgengi þannig að ekki sé hægt að tæma. „Það kemur fyrir að við verðum að skilja eftir. Það er leiðinlegt fyrir bæði okkur og einstaklinginn sem á tunnuna.“

Hann segir samvinnu fyrirtækisins og sveitarfélagsins hafa verið góða, meðal annars um að koma skilaboðum til íbúa. Það hafi skilað þeim árangri að almennt sé aðgengi í góðu lagi þótt alltaf megi gera betur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.