Söluverð fasteigna að nálgast byggingarkostnað

Fasteignasali segir austfirskan fasteignamarkað, einkum á Fljótsdalshéraði, hafa verið óvenju líflegan það sem af er ári. Tvær vikur eru síðan flutt var inn í síðustu íbúðirnar í fjölbýlishúsinu að Miðvangi 6 í miðbæ Egilsstaða.

Húsið er í daglegu tali kennt við Hlymsdali, félagsaðstöðu aldraðra sem er á neðstu hæðinni, en íbúðir í húsinu eru ætlaðar eldra fólki. Það á sér nokkuð langa sögu því byrjað var að byggja það fyrir hrunið 2008. Framkvæmdir stöðvuðust vegna gjaldþrots Malarvinnslunnar en félag á vegum VHE keypti síðar húsið og var það tilbúið snemma árs 2010.

Í húsinu eru 22 íbúðir. Fimm þeirra seldust nánast strax en síðan gekk hægt. Skriður komst svo á söluna og á rúmu ári hafa selst 13 íbúðir. „Fyrst eftir hrun þótti verð íbúðanna mjög hátt. Síðan hefur fasteignaverð á Egilsstöðum hækkað mikið en þessar íbúðir ekki. Þær hafa verið á sama verði frá árinu 2010,“ segir Hilmar Gunnlaugsson, eigandi fasteignasölunnar Inni, sem selt hefur íbúðirnar, í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Keðjuverkandi áhrif

Sala íbúðanna hefur haft keðjuverkandi áhrif á fasteignamarkaðinn á Egilsstöðum. Eldra fólk kaupir íbúðirnar og selur einbýlishúsin sem það hefur búið í lengi til yngra fólks. „Áhrifin á fasteignamarkaðinn hafa verið afskaplega jákvæðið. Það hjálpaði líka að VHE var tilbúið að taka eignir upp og sjá um að selja þær áfram.

Þegar fólk áttaði sig á að það væri hreyfing á íbúðum í húsinu stökk það til. Það eru ákveðin lífsgæði að búa í húsi sem þessu, með bílakjallara, félagsmiðstöð á fyrstu hæð og í hjarta bæjarins. Þetta er sú tegund eigna sem samfélög þurfa,“ segir Hilmar.

Myndi muna miklu ef fasteignaverð stæði undir byggingarkostnaði

Hilmar telur hæpið að annað sambærilegt hús verði byggt á næstunni en vonast til þess að forsendur séu að skapast til að byggja meira á Egilsstöðum. „Markaðurinn hér hefur verið líflegur allt þetta ár og stórar eignir hækkað nokkuð í verði, enda áttu þær mikið inni því verðin hafa verið lág miðað við byggingarkostnað. Ef byggja ætti sambærilega blokk frá grunni í dag myndi fasteignaverðið vart standa undir byggingarkostnaðinum. Fasteignaverðið þarf að hækka aðeins meira þannig fólk sjái hag í að byggja en miðað við þróunina síðustu misseri þarf ekki mikið til að við séum komin á sjálfbæran stað. Það yrði gríðarleg búbót fyrir þetta samfélag.“

Fasteignamarkaðurinn hefur einnig verið líflegur víðar á Austurlandi. „Það er búið að vera gott alls staðar. Á Seyðisfirði og Djúpavogi hefur vantað húsnæði. Á Vopnafirði og Norðfirði höfum við fundið mikla eftirspurn eftir góðum eignum og það sama gildir auðvitað um aðra þéttbýliskjarna í Fjarðabyggð. Það koma góðir kaflar og svo rólegir inn á milli því það skortir húsnæði á markaðinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.