Skip to main content
Eyjólfur Ármannsson á fundi á Egilsstöðum í ágúst. Mynd: GG

„Snýst ekki um lýðræði heldur peninga“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. okt 2025 15:33Uppfært 06. okt 2025 15:43

Innviðaráðherra gefur lítið fyrir mótbárur minni sveitarfélaga sem telja lýðræðislegan rétt íbúa sinna fótum troðinn með tillögum um að ráðherra fái heimild til að sameina sveitarfélög. Fjármálaráðherra segir mestu tækifærin til hagræðingar vera í sameiningu fjölmennustu sveitarfélaganna.


Sameiningar sveitarfélaga voru ræddar í pallborði á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á fimmtudag. Tvær vikur eru síðan Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, lagði fram tillögur að nýjum sveitarstjórnarlögum. Í þeim er að finna ákvæði um að ráðherra geti ákveðið að sameina sveitarfélög með innan við 250 íbúa við önnur.

Fljótsdalshreppur er eina sveitarfélagið á Austurlandi sem fellur undir þá skilgreiningu. Í samtali við Austurfrétt fyrir viku lýsti Helgi Gíslason, sveitarstjóri, áformunum sem ólýðræðislegum. Fljótsdælingar virðast ætla að fylgja því eftir þar sem fyrsti liður á dagskrá sveitarstjórnarfundar á morgun ber yfirskriftina: „Breyting á sveitarstjórnarlögum – afnám lýðræðis.“

„Við sáum bara þessa tölu“

Í ræðu sinni á fjármálaráðstefnunni rakti Eyjólfur ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga allt aftur til Grágásar. Það hefði loks verið afnumið árið 2011. Hann sagði tillögurnar lið í að framkvæma stefnu stjórnvalda þar sem ríkið hefði lengi lagt áherslu á sameiningu sveitarfélaga.

Eyjólfur sagði mikilvægasta hlutverk sveitarfélaga að veita íbúum sem allra besta þjónustu og fullyrti að stærri sveitarfélög veittu betri þjónustu. Í tillögunum er gert ráð fyrir að minni sveitarfélög sem veiti þjónustu séu undanþegin sameiningu.

„Sum þessara sveitarfélaga reka ekki eigin grunnskóla, félagsþjónustu eða skipulagsmál. Hver er tilgangur slíks sveitarfélags? Um hvað kjósa íbúar sveitarfélaganna í næstu kosningum? Ekki þá sem ráða þjónustunni.“ Eyjólfur hélt því síðar fram við pallborðsumræður að lítil sveitarfélög hamli byggðaþróun og slagkrafti landsbyggðar. 

Aðspurður gat hann ekki svarað hversu mörg sveitarfélög yrðu fyrir áhrifum af breytingunum en var bent á að þau væru átta. Fundarstjóri þurfti einnig að ítreka spurningu um hvernig talan 250 væri fengin. Eyjólfur byrjaði á að gagnrýna úthlutanir til minni sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði, svaraði síðan: „Við sáum bara þessa tölu, hún nær utan um ákveðinn fjölda“ og bætti við að hann hefði fengið áskoranir úr ýmsum áttum að fara hærra. „Getur 50-60 manna eining verið stjórnvald? Ég segi nei.“

Á móti gerræðisvaldi ráðherra

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins, lýstu sig andvíga hugmyndunum í pallborði. Þær kölluðu hugmyndir ráðherra þvingunaraðgerðir. 

„Ef sameiningaraðgerðir eiga að ganga vel þá verða þær að koma frá íbúum sjálfum. Ég er mótfallin því að veita ráðherra gerræðisvald til að þvinga sveitarfélög til sameininga. Við búum í lýðræðisríki,“ sagði Guðrún.

Ingibjörg, sem er búsett í Borgarbyggð, setti út á gagnrýni Eyjólfs á sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar en hann sagði Skorradalshrepp hafa fengið 130-140 milljónir á ári frá fólki sem byggi þar í sumarhúsum. „Frumkvæðið í þeirri sameiningu kom frá sveitarfélögunum og íbúunum. Við skulum ekki gera lítið úr því,“ sagði hún.

Fljótsdalshreppur hýsir stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar og fær því fasteignagjöld af henni. Mynd: Landsvirkjun



„Sveitarfélagið með milljónirnar úr virkjuninni vill ekki sameinast því fátæka við hliðina“

Eyjólfur sagði vörn Guðrúnar sérkennilega komandi frá stjórnmálaflokki sem vildi báknið burt. Ef einhvers staðar væri bákn þá væri það í sveitarfélögunum. „Þetta snýst ekki um lýðræði heldur peninga. Sveitarfélagið sem fær hundruð milljóna úr virkjuninni vill ekki sameinast fátæka sveitarfélaginu við hliðina á sér.“ Rétt er að taka fram að Eyjólfur nefndi þar engin sveitarfélög á nafn.

Hann kom einnig inn á áform um ný lög sem ganga út á að greiddir verði skattar af fleiri virkjunarmannvirkjum en í dag. Sem kunnugt er fær Fljótsdalshreppur fasteignagjöld af Kárahnjúkavirkjun þar sem sveitarfélagið hýsir stöðvarhúsið. Eyjólfur sagði að sveitarfélög með „slíkan hvalreka“ ættu ekki að sitja að honum ein, heldur væri „lýðræðislegt að hann dreifist á vinnusóknarsvæðið.“ Í lokin bætti hann við að „með svona rosalega lítil sveitarfélög“ sé rétt að reikna „tekjur á mann“ og það sem fari umfram ákveðin mörk „fari allt í Jöfnunarsjóð.“

Mesta hagræðingin fengist á höfuðborgarsvæðinu

Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrum innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tók undir hagræðinguna og sagði að sameining sveitarfélaga gæti sparað 6-10 milljarða sem mætti nota í þjónustu við íbúa. Það sé hins vegar þeirra að taka umræðuna.

Sem innviðaráðherra lagði Sigurður Ingi fram tillögu um að lágmarksstærð sveitarfélaga yrði 1000 manns. Hann sagði þá tillögu hafa verið fengna eftir meðal annars samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga. Henni var hins vegar ekki fylgt frekar eftir af hans hálfu. 

Daði Már Kristófersson, sem tók við fjármálaráðuneytinu af Sigurði Inga, grínaðist með að hann væri kominn með reynslu af að klára mál frá Sigurði Inga. Hann tók undir með öðrum að þjónusta við íbúa væri lykilatriði því sveitarfélögin væru „ekki rekin fyrir kjörna fulltrúa.“

Hann taldi hagræðingarmöguleikana þó vera að finna annars staðar en í þeim sveitarfélögum sem Eyjólfur og Sigurður Ingi þrýstu mest á um að yrðu sameinuð. „Ef við skoðum hagræðingarmöguleikana þá eru þeir fyrst og fremst í sameiningu stærri eininga. Það er umræða sem er erfið en mikilvæg,“ sagði Daði Már og tók beint fram að hann ætti við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Ef sveitarfélögin treysta sér í þjónustuna þá geta þau ekki neitað ríkinu

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Sigurður Ingi hefði lagt fram metnaðarfull áform um 1000 manna lágmarksstærð. Síðan hefði farið fram samtal og út úr því meðal annars komið að minni sveitarfélögin treystu sér til að veita þá þjónustu sem ríkið krefst og íbúar séu ánægðir með. Það þýði á móti að Samband sveitarfélaga geti ekki lengur hafnað verkefnum frá ríkinu á þeim forsendum að minnstu sveitarfélögin ráði ekki við þau.

Aðspurður um afstöðu sveitarfélaga sagði Jón Björn Hákonarson, formaður sambandsins og forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, að þau hafi talað fyrir frjálsum hvötum. Hann komi sjálfur úr margsameinuðu sveitarfélagi sem séð hafi bæði kosti og galla sameininga en íbúar séu sammála um að kostirnir hafi yfirunnið gallana.

Í framsöguræðu sinni kom Eyjólfur einnig inn á jarðgangahugmyndir. Hann sagði að óbreyttu myndu framkvæmdir hefjast af fullum krafti árið 2027. Áður væri jafnvel hægt að hefja endurbætur á eldri göngum. Hann ítrekaði að hann muni ekki mæla fyrir forgangsröðun jarðganga fyrr en þegar hann leggi fram samgönguáætlun í nóvember.

Jón Björn Hákonarson á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í síðasta mánuði. Mynd: GG