Orkumálinn 2024

Snör viðbrögð við eldsvoða í vélageymslu

Slökkviliðið á Vopnafirði var í gær kallað út vegna elds í vélageymslu að bænum Skjaldþingsstöðum. Flest önnur tæki en kaffikannan í skemmunni sluppu en aðstæður voru ekki glæsilegar er brunaliðið kom að.

Tilkynning um eldsvoðann barst um klukkan hálf ellefu í gærmorgun og var slökkviliðið komið fljótt á staðinn.Björn Heiðar Sigurbjörnsson, slökkviliðsstjóri á Vopnafirði segir aðstæður ekki hafa verið glæsilegar þá.

„Þetta leit ekki vel út í byrjun. Skilaboðin sem við fengum væru að það væri mikill reykur í skemmunni og sæist í eld. Við gengum því út frá á að húsið gæti allt eins verið orðið alelda er við kæmum.

Við sáum hins vegar fljótt að eldurinn væri staðbundinn í starfsmannaaðstöðu. Þegar við opnuðum var allt fullt af reyk þannig það var erfitt fyrir reykkafarana að athafnasig og komast að upptökum eldsins. Eftir að við fundum eldinn gekk mjög vel að slökkva hann.“

Björn Heiðar segir öll tæki sem voru inni í skemmunni hafa sloppið við eldinn en reykur hafi farið um allt. Þá hafi orðið mikið tjón í starfsmannaðstöðunni auk þess sem slökkviliðið þurfti að rífa töluvert af innréttingum og klæðningum til að komast að eldinum.

Rannsókn á eldsupptökum eru óljós en þó er ljóst að eldurinn var mestur í kringum kaffikönnu í starfsmannaaðstöðunni.

Björn Heiðar segir að varnaraðgerðir gegn Covid-19 veirunni hafi átt óbeinan þátt í hve hratt slökkvistarfið gekk því allir slökkviliðsmenn hafi verið heima við og greitt gengið að boða þá.

Þá hafi verið heppni að unglingssonur eiganda skemmunnar hafi verið heima við og haft hárrétt viðbrögð. „Hann átti leið framhjá skemmunni, sá eldinn og hringdi strax í 112. Það voru frábær viðbrögð að hringja beint í Neyðarlínuna því fyrsti tíminn skiptir mestu við svona aðstæður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.