Snjór á heiðum hrekur fugla niður í byggð

Íbúar á Austurlandi hafa undanfarna daga orðið varir við fugla í meira mæli í byggð heldur en oft á þessum árstíma. Sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands telur mikinn snjó á heiðum helstu skýringuna.

Austurfrétt hefur fengið ábendingar úr bæði dreifbýli og þéttbýli á Mið-Austurlandi um að mikinn fjölda lóu sé að sjá í byggð.

Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segist ekki hafa tekið sérstaklega eftir lóunni en mikill snjór á heiðum og kuldi hafi þau áhrif að líklegra sé að fuglar haldi sig á láglendi.

Þannig sé það vel þekkt að hrossagaukar leiti inn í garða í þéttbýli í kuldahretum því upp við húsveggi sé jörð þýð og þar komist fuglarnir í ánamaðka.

Þá sé hægt að merkja það á ferðum hreindýra að enn virðist mikill snjór á heiðum. Nú er burðartími dýranna og halda kýrnar þá til fjalla. Hægt er að fylgjast með nokkrum kúm, sem merktar hafa verið, í gegnum vef Náttúrustofunnar og má þar sjá að sumar þeirra virðast ætla að halda sig á láglendi. Austfirðingar gætu því orðið varir við fleiri kálfa á svæðinu á næstunni en oft áður.

Jaðrakanar frá Portúgal

Skarphéðinn segist hins vegar hafa orðið var við töluverðan fjölda af jaðrakönum í kringum Egilsstaði að undanförnu. Honum barst ábending um að stór hópur hefði safnast saman í Egilsstaðakollinum í byrjun síðustu viku og leiddi talning í ljós að þeir voru á annað þúsund. Meðal þeirra voru fuglar með merki og við eftirgrennslan kom í ljós að annað þeirra hafði verið sett á í Lissabon í fyrrahaust.

Um það bil mánuði fyrr sáust tvær merktar álftir á Egilsstaðanesi. Í ljós kom að önnur þeirra hafði verið merkt á Norðurlandi vestra árið 2007 en álftir geta orðið meira en 20 ára gamlar. Skarphéðinn bendir á að nú sé varptími álfta. Þær haldi meðal annars til á vötnum við vegi, til dæmis við Fremravatn við bæinn Kross í Fellum. Karlfuglinn er á vakt til að verja hreiðrið og fara verður varlega því ella er hætta á að hann sé keyrður niður. Þá varar Skarphéðinn fólk einnig við að reyna að nálgast álftahreiður þar sem karlfuglarnir eru vísir til að vera í árásarham.

Músarrindilinn vantar

Austfirðingar hafa sennilega margir orðið varir við mikinn fjölda gæsa að undanförnu, en þær hafa leitað eftir æti á láglendi. Í undirbúningi er að Náttúrustofa Austurlands taki að sér vöktun gæsa á landsvísu.

Einn er sá fugl sem lítið hefur sést af að undanförnu sem er músarrindill. Skarphéðinn segist hafa spurst fyrir um fréttir af fuglunum víðar af landinu og af þeim sé ljóst að stofninn virðist vera  í niðursveiflu víðar. Skarphéðinn segir ástæðu fækkunarinnar óljósa en þó sé vitað að fækkað geti í stofninum í hörðum vetrum. Austfirðingar sem hafa orðið varir við músarrindil að undanförnu eru beðnir um að hafa samband við Náttúrustofu Austurlands sem er að safna nánari upplýsingum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.