Snjallsímabann gengur í gildi á föstudag

Bann við almennri notkun nemenda á snjalltækjum í grunnskólum Fjarðabyggðar gengur í gildi á föstudag, 1. febrúar. Athugasemdir voru gerðir við ákvörðunina, bæði af nemendum og kennurum.

Bannið gildir í eitt ár til að byrja með og verða reglurnar endurskoðaðar í febrúar 2020. Samkvæmt þeim skulu nemendur ekki nota eigin snjalltæki, snjallsíma eða snjallúr, á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóð.

Mælst er til þess að tækin séu geymd heima, ella slökkt á þeim. Þeir sem ítrekað brjóta reglurnar verða sendir til skólastjóra sem gerir tækið upptækt.

Markmið bannsins er að bæta námsumhverfi og líðan nemenda. Ákvörðunin byggir meðal annars á greinargerð sálfræðinga Skólaskrifstofu Austurlands sem segja snjallsímanotkun barna og ungmenna sé of mikla. Þeir vísa til nýlegra rannsókna um að snjallsímanotkun hafi neikvæð áhrif á námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og trufli tilfinninga- og félagsþroska.

Í áliti persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins segir að símtækin séu með öllu óþörf fyrir grunnskólanema nema í algjörum undantekningartilfellum þar sem nemandi sé háður þjónustu í símanum. Mikilvægt sé að takmarka notkun tækjanna þar sem til dæmis myndataka á skólalóð geti verið í óþökk annarra og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar.

„Ekkert annað en tímaskekkja“

Ýmsar athugasemdir komu hins vegar fram við tillöguna áður en ákvörðunin var tekin. Ungmennaráð sveitarfélagsins mótmælti því að ekki hefði verið leitað álits þess með formlegum hætti enda hlutverk þess að veita umsagnir um mikilvæg málefni sem varði ungmenni. Í athugasemdum ráðsins er gagnrýnt að með banninu sé skólayfirvöldum veitt full stjórn á lífi ungmenna allan skóladaginn.

Ráðið bendir einnig á að tækin séu gagnleg í skólastarfi. „Í raun ætti skólakerfið að vera að aðlaga sig að notkun snjallsíma í stað þess að sporna við innleiðingu þeirra. Augljóst er að tíminn mun leiða það í ljós að bann þetta er ekkert annað en tímaskekkja,“ segir í yfirlýsingu þess.

Réttara að kenna umgengni við tæknina

Kennarar á unglingastigi Nesskóla segjast „undrandi og sárir“ yfir að ekki hafi verið leitað faglegs álits þeirra. Þeir benda á að símar séu orðnir hluti af upplýsingaöflun hvers nemanda og ekki séu til nógu mörg snjalltæki, eða tryggt aðgengi að þeim þegar á þarf að halda, í skólanum. Nær væri að kenna hvernig eigi að nýta tækin á jákvæðan hátt.

Ekki ósvipaður tónn er í umsögn skólastjórnenda. Þeir eru þó einhuga um að ef nemendur hafi með sér snjalltæki í skólann skuli vera slökkt á þeim á skólatíma.

Í áliti skólastjóranna er líka vakin athygli á að bæta þurfi rækilega í tækjakost skólanna. Sveitarfélagið hefur því fjárfest í 500 snjalltækjum, til viðbótar við þau 130 sem fyrir voru. Tækin eiga því öll að vera komin í hús fyrir föstudag og nemur kostnaður við þau 24,4 milljónum króna. Að auki hefur bæjarstjórn samþykkt að bæta nettengingar inn í skólana og þráðlaust samband innan þeirra.

Mynd: PxHere

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar