Smári Geirsson: Það voru gerð hróp að mér á götum Reykjavíkur

smari_geirsson.jpg
Smári Geirsson, fyrrum forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, segist hafa sætt líflátshótunum í aðdraganda byggingar álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Samstaða heimamanna er að hans mati forsendan fyrir að atvinnuverkefni á borð við álverið komist á laggirnar á landsbyggðinni.

„Það voru gerð hróp að manni á götum Reykjavíkur, maður fékk óþægileg símtöl og bréf sem fólu í sér grófar hótanir á borð við líflát. Umræðan fór út fyrir allt velsæmi,“ er haft eftir Smára í afmælisblaði Fjarðaálsfrétta.

Fimm ár eru um þessar mundir frá því álverið tók til starfa. Smári segir að tilkoma þess hafi orðið til þess að gefa Austfirðingum nýja trú á framtíð svæðisins. „Fólk fékk trú á því að hér væri hægt að skapa sér blómlega framtíð og margt ungt fólk snéri heim á ný að afloknu langskólanámi. Í þann hóp bættist síðan fólk sem átti rætur annars staðar en sá möguleika á góðri afkomu og bjartri framtíð eystra.“

Að mati Smára skiptir máli að heimamenn, einkum á landsbyggðinni, standi saman þegar þeir vilji koma á fót stórum atvinnulífsverkefnum.

„Við lærðum meðal annars hve mikilvægt það er að undirbúa samfélagið í heild sinni vel undir svona verkefni. Það á við hvort sem litið er til sveitarfélagsins, fyrirtækja á svæðinu eða stofnana. Menn verða að vera undir það búnir að standa í vægðarlausum deilum, sérstaklega sé verkefnið á landsbyggðinni.
 
Samstaða í heimahéraði verður að vera ótvíræð því það er forsenda þess að heimamenn geti haft áhrif á gang mála og verkefnið hér sýnir að það eru afgerandi aðgerðir á sviði atvinnulífs sem geta breytt hugarfari íbúa og snúið við óhagstæðri íbúaþróun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.