Smit mögulega á sveimi á Egilsstöðum

Rúmlega 180 manns mættu í Covid-sýnatöku á Egilsstöðum í dag. Ekki hefur tekist að greina uppruna smita sem komið hafa upp þar síðustu daga. Tveir greindust utan sóttkvíar í sýnatöku í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.

Alls greindust þrjú smit á Egilsstöðum í gær. Einn hinna smituðu var í sóttkví, en hinir tveir ekki. Verið er að rekja smitin.

Í hádeginu voru tekin rúmlega 180 PCR sýni. Sýnatakan er í gamla Blómabæ en röðin teygði sig yfir á bílaplanið hjá Bónus, sem er fyrir innan, þegar mest lét. Von er á niðurstöðum seint í kvöld eða fyrramálið og verða nánari upplýsingar sendar út þá.

Mörg smit hafa greinst á Egilsstöðum undanfarna daga. Í tilkynningunni segir að ekki hafi verið hægt að tengja þau öll saman varðandi uppruna eða útsetningu. Því sé ljóst að smit kunni að vera á sveimi í samfélaginu.

Aðgerðastjórnin áréttar því að fólk sinni vel persónubundnum sóttvörnum, haldi sig heima ef einkenni geri vart við sig og bóki PCR-sýnatöku við minnsta grun. Þá sé rétt að fara varlega í margmenni um helgina og hjálpast þannig að við að hindra útbreiðslu smita.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.