Smit hjá Loðnuvinnslunni og Tjarnarskógi

Covid-smit voru í gærkvöldi staðfest hjá Loðnuvinnslunni Fáskrúðsfirði og leikskólanum Tjarnarskógi á Egilsstöðum. Gripið hefur verið til aðgerða á báðum stöðum vegna þessa.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir smitið hafa greinst hjá starfsmanni sem var að koma eftir ferð erlendis. Próf á landamærunum hafi reynst neikvætt en starfsmaðurinn hafi sóst eftir að taka hraðpróf þegar hann var kominn austur. Það hafi verið jákvætt og hann þá farið í PCR próf sem staðfesti niðurstöðuna.

Viðkomandi starfar í fiskimjölsverksmiðjunni. Fjórtán aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafa farið í sóttkví eða smitgát vegna smitsins. Þeir sem eru í smitgát geta snúið aftur til vinnu á morgun. Friðrik segir að greinist ekki mikið fleiri smit verði áhrifin á starfsemina lítil.

Þá greindist einnig smit hjá leikskólabarni á Tjarnarskógi á Egilsstöðum í gærkvöldi. Helga Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Múlaþings, segir að höfðu samráði við bakvaktarteymi hafi verið ákveðið að hafa deildina lokaða í dag. Beðið er fyrirmæla um framhaldið frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar á Austurlands.

Hún kom saman til klukkan 14:30 í dag vegna smita sem greinst hafa á Austurlandi síðustu daga. Þeim hefur farið fjölgandi og voru í morgun 22 í einangrun í fjórðungnum. Tilkynningar um stöðuna er að vænta eftir fundinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.