
Smávægileg hreyfing á hryggnum við Búðará
Nokkurra millimetra hreyfing hefur greinst á jarðvegshrygg utan við Búðará á Seyðisfirði undanfarinn sólarhring. Öruggt er þó talið að sprengja vegna snjóflóðavarnagarða þar í dag. Vatnsyfirborð Lagarfljóts hefur lækkað mikið.Úrkoman í gær og nótt á Austfjörðum mældist 2-4 mm., sem er óverulegt. Spáð er svipuðu veðri á morgun en á fimmtudag er von á hlýindum og úrkomu sem gæti þýtt allt að 50 mm. rigningu á Seyðisfirði.
Samkvæmt yfirliti ofanflóðadeildar Veðurstofunnar mældist hreyfing hryggjarins 3-5 mm., Þó hefur hægst á henni. Hreyfing er einnig á Þófa en minni.
Vatnshæð í borholum hefur heldur lækkað en hún er enn há. Því þykir ekki ástæða til rýminga en ráðið er frá vinnu eða umferð í lækjar- og skriðufarvegum, sérstaklega við Búðarána þar sem jarðlög eins og hryggurinn hafa verið óstöðug síðan í skriðuföllunum í desember 2020.
Vinna við gerð snjóflóðavarna í norðanverðum firðinum halda áfram og í dag milli klukkan 14 og 15 verður klöpp losuð í Skaganámu með sprengingu. Viðvörunarflautur hljóma áður. Þetta er gert að höfðu samráði við Veðurstofuna sem telur ekki hættu á ferðum.
Vatnsyfirborð Lagarfljóts við Fellabæ hefur lækkað um 40 sm. frá því það var hæst á sunnudagskvöld. Það breytir því ekki að vatnsstaða í fljótinu er enn mjög há. Samkvæmt gögnum Veðurstofunnar hefur rennsli Jökulsár í Fljótsdal við Valþjófsstað, Geithellnaár í Álftafirði og Fossár í Berufirði einnig lækkað verulega og er komið niður undir það sem það var þegar mestu rigningarnar hófust fyrir 10 dögum þótt þær séu enn allar vatnsmiklar.