Sálfræðingar vildu segja Hannesi upp til að bæta starfsandann

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg
Tveir sálfræðingar, sem könnuðu líðan starfsfólks heilsugæslunnar í Fjarðabyggð fyrir heilbrigðisráðuneytið árið 2009, lögðu til að Hannes Sigmarssyni, þáverandi yfirlækni, yrði sagt upp störfum. Ástæðan var framkoma hans gagnvart samstarfsfólki bæði áður en hann var sendur í leyfi vegna gruns um fjárdrátt og á meðan því stóð.

Skýrslan hefur ekki verið birt opinberlega en kafla úr henni má finna í dómi héraðsdóms Austurlands í deilumáli Hannesar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem féll í vikunni. Hannesi var sagt upp störfum í lok desember árið 2009 eftir miklar deilur. Samskiptaörðugleikar við yfir- og undirmenn voru meðal ástæðna uppsagnarinnar.

Í tillögukafla skýrslunnar, sem var birt fyrr í þeim mánuði, segir meðal annars að „finna [þyrfti] leið til að leysa [Hannes] frá störfum.“

Djúpstæður samskiptavandi og eineltistilvik

„Líðan starfsfólksins undanfarin misseri hefur með einum eða öðrum hætti snúist um samskiptin við [Hannes], framkomu hans, starfsaðferðir og viðmót. Mikill meirihluti viðmælenda taldi ástandið hafa verið óviðunandi meðan [Hannes] var við störf og óar við tilhugsuninni um að [Hannes] komi aftur til starfa.“

Í skýrslunni kemur fram að í samtölum við starfsfólk hafi komið fram „djúpstæður samskiptavandi stefnanda við ýmsa starfsmenn stofnunarinnar og jafnvel eineltistilvik af hendi hans,“ að því er segir í dóminum.

Samskiptavandinn ekki nýr

Í greinargerð HSA segir að samskiptavandinn hafi ekki verið nýr af nálinni. Hann hafi verið ræddur við Hannes á fundi í október árið 2007. Í minnisblaði forstjóra lækninga hjá HSA segir að Hannes hafi átt í deilum við tíu nafngreinda starfsmenn HSA.

„Þar á meðal forstjóra, framkvæmdastjóra lækninga, tvo aðra lækna, fjármálastjóra, tvo hjúkrunarfræðinga, ritara, forstöðumann tæknideildar auk þess sem hann hafi sett fram grófar, tilhæfulausar ásakanir á hendur samstarfslækni við Heilsugæslu Fjarðabyggðar um lyfjamisnotkun. 

Á vinnustöðum geti samstarfsmenn deilt um hluti, en yfirleitt náist sættir. Í tilviki stefnanda liggi fyrir að hann hafi átt í svo miklum samskiptaörðugleikum við samstarfsfólk sitt að það sé sjálfstætt fundarefni með yfirstjórn stofnunarinnar, sem sé einsdæmi í sögu HSA.“

Óráðlegt að yfirlæknirinn komi aftur

Í skýrslunni er haft eftir starfsmönnum hjá HSA að þeir myndu hætta ef læknirinn snéri aftur til starfa. Nokkrir starfsmenn árin á undan hafi þegar horfið á braut vegna samstarfsörðugleikanna.

„Þeir sem segjast ekki hafa átt í alvarlegum erfiðleikum í samskiptum við HS, en telja stjórnunaraðferðir hans afar slæmar og framkomu hans gagnvart hluta samstarfsmanna sinna með öllu óviðeigandi. Einnig er nefnt að nokkrir starfsmenn hafi orðið fyrir einelti af hans hálfu og það sé óráðlegt að yfirlæknirinn komi til baka,“ segir í skýrslunni.

„Þeir sem segjast hafa orðið fyrir neikvæðri framkomu HS, telja hann með öllu óhæfan sem stjórnanda og að það sé vonlaust að hann snúi aftur til starfa.“

Fékk ekki að tjá sig um skýrsluna

Í greinargerð HSA er vísað til þess að í skýrslu sálfræðinganna hafi æðstu stjórnendur stofnunarinnar „almennt fengið ágæta einkunn hjá starfsfólki Heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, en séu þó gagnrýndir fyrir að hafa ekki beitt sér nægjanlega gagnvart [Hannesi], þrátt fyrir vitneskju um ámælisverða þætti í starfsháttum og framkomu.“

Einnig þurfi að hlú sérstaklega að starfsmannahópnum á Eskifirði. „Eftir yfirmannstíð stefnanda sé það niðurstaða sálfræðinganna að samskipti og starfsandi, þá sérstaklega á vinnustað stefnanda á Eskifirði, sé í rúst og hlú þurfi að starfmönnum Heilsugæslunnar Fjarðabyggð,“ segir í greinargerð HSA.

Fyrir dómnum benti Hannes á að honum hefði ekki fengið að tjá sig um skýrslu sálfræðinganna. Þá hafi ekki verið rætt við alla starfsmenn heldur aðeins þá sem valdir voru af yfirstjórn HSA. Þar sem ekki var rætt við Hannes hélt hann því fram að skýrslan hefði ekki vægi varðandi uppsögn hans.

Þorri viðmælenda rakti vandann til framkomu læknisins

Dómurinn tók ekki afstöðu til uppsagnarinnar en skýrslan var lögð til grundvallar í úrskurði meiðyrðamáls Hannesar gegn forstjóranum, Einari Rafni Haraldssyni. Þar var Einar Rafn sýknaður fyrir ummæli um óásættanlega framkomu Hannesar í garð yfirmanna og samstarfsfólks. 

Annar sálfræðinganna bar fyrir dómnum að „þorri viðmælenda hefði rakið vanda vinnustaðarins til framkomu“ Hannesar. Því þótti ekki sannað að ummæli Einars Rafns væru óréttmæt.

Í lok greinargerðar HSA er því haldið fram að starfsandinn á Heilsugæslu Fjarðabyggðar hafi „gerbreyst til hins betra“ eftir að Hannesi var vikið frá störfum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.