Sláturhúsið hluti af evrópsku samstarfsverkefni

Nýverið hlaut verkefnið ACT IN_OUT styrk frá EES upp á 72 milljónir króna. ACT IN_OUT er alþjóðlegt menningar- og rannsóknarverkefni sem Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs er hluti af í gegnum Sláturhúsið á Egilsstöðum. Auk Sláturhússins kemur menningarmiðstöðin Fabryka Sztuki í Lodz í Póllandi og sviðslistahópurinn Carte Blanche í Bergen í Noregi að verkefninu en Fabryka Sztuki ber höfuðábyrgð á því.


Verkefnið er margþætt og viðamikið og stendur til ársloka 2023. Í gegnum það mun Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs skipuleggja gestadvöl listamanna frá Póllandi á Austurlandi og hugmyndin er að listafólkið fari á mismunandi staði til dvalar með tilliti til hvaða listform þau vinna með. MMF velur einnig hóp listafólks sem starfar á Íslandi til gestadvalar í Póllandi. Þá mun menningarmiðstöðin einnig sjá um skipulagningu á tónlistarviðburðum pólskra tónlistarmanna en stefnt er að viðburðir verði bæði haldnir á Austurlandi og í Reykjavík.

Viðurkenning á starfi Sláturhússins undanfarin áratug
„Við erum að sjálfsögðu afar ánægð með þennan styrk, hann er að mínu mati meðal annars viðurkenning á þeim verkefnum sem að við höfum unnið með pólsku listafólki hér á Íslandi og ber þar hæst listahátíðina Vor/Wiosna þar sem að pólskt listafólk sem hefur tengsl við Ísland hefur komið fram og sýnt verk sín. Sú hátíð er einstök hér á landi og sú fyrsta sinnar tegundar, held ég að ég megi leyfa mér segja. Seinni hluti Vor/Wiosna 2021 fer einmitt að skell á núna í lok september. Þetta er einnig viðurkenning á því starfi og verkefnum sem að unnin hafa verið í Sláturhúsinu undanfarin ár. Þau verkefni sem fengu styrk eru valin afar gaumgæfilega og því til mikils að við gátum sýnt fram á bæði metnaðarfullt og listrænt starf síðustu 10 árin og að stofnunin stendur föstum fótum og hefur burði til að standa að þessu verkefni með tilliti til þeirrar þekkingar og reynslu sem við höfum aðgang að,“ segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs um verkefnið.

Ragnhildur segist ánægð með að Sláturhúsið sé í samstarfi við öflugar menningarstofnanir eins og Fabryka Sztuki, sem er ein virtasta menningarmiðstöð Póllands, og Carte Blanche, sem er mikilsvirtur danshópur á alþjóðavettvangi. „Carte Blanche er einn stærsti danshópur Noregs og mikilsvirtur á alþjóðavettvangi svo það má segja að við séum himinlifandi að komast í tengsl við þann hóp og aldrei að vita hvað verður úr því samtali síðar. Við stöndum í miklum endurbótum á húsnæði Sláturhússins og munum í framtíðinni geta boðið upp á einstaka aðstöðu fyrir danslistafólk til að koma og vinna verkefni sín hér í gestadvöl.“

Í tenglsum við ACT IN_OUT verður haldin ráðstefna menningarstjórnenda og fræðafólks frá Póllandi, Íslandi og Noregi auk þess sem gefið verður út bókverk um sögu, samfélag og listafólk sem tengist Lodz, Fabryka Sztuki, Sláturhúsinu og Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.