Slæm færð á Fjarðarheiði heldur aftur af ferðalöngum

Vont veður og vetrarfærð á Fjarðarheiði hefur sett strik í reikning ferðalanga úr tveimur skemmtiferðaskipum og ferjunni Norrænu á Seyðisfirði í morgun.


Um 1000 farþegar eru um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem kom til Seyðisfjarðar um hádegi í gær. Skipið kom fyrr til hafnar en ætlað var vegna veðurs.

Margir þeirra áttu bókað í skoðunarferðir um Austurland í dag. Rúturnar sem áttu að sækja þá fóru hins vegar aldrei yfir Fjarðarheiði en á henni var þæfingsfærð og hvassviðri á sjöunda tímanum í morgun.

Skoðunarferðunum var því breytt í gönguferðir í staðinn.

Um 750 farþegar og á annað hundrað farartæki komu með Norrænu í morgun. Ferðalangar, bæði á einkabílum og rútum, lögðu á heiðina upp úr klukkan tíu og var ferjuhúsið þá að tæmast.

Einhverjum mun þó ekki hafa litist á blikuna er á heiðina var komið og snéru aftur til Seyðisfjarðar, þar á meðal ein rúta.


Á Seyðisfirði er einnig skemmtiferðaskipið Ocean Diamond með um 150 farþega.

„Fjarðarheiðin setur stórt strik í reikninginn hjá þessum ferðalöngum. Það er löngu orðið tímabært að grafa holu í gegnum hana,“ sagði Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður, þegar Austurfrétt hafði tal af honum í morgun.

Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar er hálka á heiðinni og skafrenningur. Af vefmyndavélum að dæma er skyggni þar takmarkað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.