Sá skvettuna úr skriðunni bera við himinn

Fáir sáu stóru skriðuna sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember síðastliðinn heldur en Vilhjálmur Ólafsson. Hann sat í bifreið björgunarsveitarinnar og horfði upp eftir Búðáránni þegar skriðan kom niður. Vilhjálmur var síðan einn örfárra sem voru á Seyðisfirði nóttina eftir skriðuna.

„Ég sit í Unimog-inum og horfi meðfram ánni upp í fjallið. Það var mjög lítið rennsli í henni þarna og það litla vatn sem kom var kakóbrúnt. Síðan kemur druna, eins og þegar verið er að sprengja og svo kemur þetta æðandi niður.“

Þannig hefur Vilhjálmur frásögn sína af því sem hann sá. Hann hefur tekið þátt í starfi björgunarsveitarinnar Ísfóls frá því hann fluttist til Seyðisfjarðar fyrir um 30 árum. Eins og margir aðrir í sveitinni hafði hann verið á vakt dagana á undan. Hann var kallaður út seinni part þriðjudagsins 15. þegar fyrstu skriðurnar féllu á bæinn og hús voru rýmd.

Að morgni föstudagsins var ljóst að húsið Breiðablik hafði færst af undirstöðum sínum. Vilhjálmur rifjar upp að hann hafi kvatt eiginkonu sína áður en hún fór í vinnuna en sjálfur klæddi hann sig í björgunarsveitarbúninginn og fylgdi hann syni þeirra í skólann. Síðan hélt hann rakleitt í björgunarsveitarhúsið og gekk í þau verk sem hann þurfti að sinna.

Eitt þeirra var að standa vakt á mótum Hafnargötu, Ferjuleiru og Austurvegar, í nágrenni við gamla Pósthúsið. Þar var Vilhjálmur í Unimog-bifreið björgunarsveitarinnar, miklum trukk sem vegur um fimm tonn.

„Það er að koma skriða“

„Mér fannst áin skrýtin og ákvað að keyra upp Fossgötuna þangað sem göngustígurinn upp að fossinum byrjaði. Þar er ég þegar skriðan kemur.

Það sáu hana fleiri en ég. Í talstöðina var kallað „það er að koma skriða.“ Davíð (Kristinsson), félagi minn í björgunarsveitinni, kallaði til mín: „bakkaðu, bakkaðu.“ Ég byrja að að bakka en er samt að horfa upp í fjallið. Unimog-inn er ekki sá hraðskreiðasti og þetta kemur hratt niður. Ég náði því kannski að bakka 1-2 bíllengdir.

Fyrst kemur vatn yfir bílinn, eins og þegar maður keyrir ofan í stóran poll. Síðan kemur næsta gusa, þyngra efni. Þá er dammurinn fyrir neðan fossinn í ánni orðinn fullur af aur. Efnið gusast ofan í damminn þannig að vatnið og drullan skvettist upp úr honum. Þetta bar við himinn, eins og sjá má á einu þeirra myndskeiða sem tekin voru þarna.

Ég sé ekki stóru skriðuna sjálfa, bara þessa vatnsgusu og svo hverfur allt í móðu. Ég hugsa þarna með mér að þetta sé búið. Á svona stundum fer margt í gegnum hugann, þótt tíminn sé stuttur. Maður hugsar um fólkið sitt – og svo er maður skíthræddur – það er bara þannig.

„Þetta lendir á bílnum eins bylgjur eða öldur. Í fyrstu gusunni er bara vatn og sandur, síðan fylgir grófara efni á eftir. Þá brotnar framrúðan og bíllinn hættir að keyra. Þetta voru fimm svona bylgjur. Bíllinn færðist um 80 metra, miðað við GPS tæki sem í honum var og staðnæmdist eiginlega í skriðujaðrinum. Á einhverjum tímapunkti hef ég trúlega slegið hann í frígír, þannig var hann þegar komið var að honum.“

Eins og að vaða graut

„Þegar ég lít út um gluggann bílstjóramegin sé ég húsið í Múla og að Framhús hafði færst úr stað. Ég sá ekkert lengra. Ég hugsaði um fólkið í björgunarsveitarhúsinu og húsunum í kringum Múla, ég vissi ekkert um það.

Davíð kemur stökkvandi og hjálpar mér út. Ég gat ekki opnað bílstjórahurðina svo ég fór út farþegamegin – þar var líka styttra út úr skriðunni. Ég held að skriðan hafi verið enn á hreyfingu þegar við hlupum yfir hana. Þetta var eins og að vaða graut, við sukkum alveg upp í klof.

Undir bílnum var stór steinn, eiginlega á stærð við bílinn sjálfan og mikið af stórgrýti í kring. Maður skilur því eyðilegginguna vel. Síðar rann vatnið úr skriðunni og efnið seig frá bílnum. Þegar við fengum að fara inn á svæðið var hægt að komast inn í bílinn.

Síðan hlupum við Davíð út eftir. Við Gamla ríkið mætum við manni og syni hans sem bjuggu í Þórshamri. Ég tók drenginn í fangið og henti honum inn í vinnubílinn minn, sem stóð rétt hjá Framhúsinu og keyrði þá niður í ferjuhús.

Síðan héldu verkefnin áfram. Það þurfti að ganga úr skugga um að engra væri saknað, fyrst var haldið að einhverjir hefðu lent í skriðunni. Það skýrðist nokkuð fljótt. Við þurftum líka að setja bát björgunarsveitarinnar á flot og ná í fólk sem var úti á skriðusvæðinu.

Það var merkilegt og yfirþyrmandi að sjá eyðilegginguna sem verður á augabragði. Þegar við komum út á svæði Tækniminjasafnsins hugsagði ég með mér að Auðbjörgin væri komin á flot. En hún stóð enn á sínum stað þótt skriðan færi ekki langt frá.“

Var um kyrrt til að sinna varaafli

Vilhjálmur segist „góðu heilli“ hafa getað svarað eiginkonu sinni að hann væri heill á húfi þegar hún hafði samband og hún á móti staðfest að sonur þeirra væri á öruggum stað. Mæðginin fóru upp í Hérað, þegar Seyðisfjörður var rýmdur í kjölfarið. Vilhjálmur varð hins vegar einn örfárra sem urðu eftir en hann er starfsmaður Íslenskrar orkuvirkjunar sem rekur tvær virkjanir í Fjarðará.

„Við tökum þátt í að keyra varaafl ef þarf. Ég veit að þessa nótt voru sérsveitarmenn úti í Ferjuhúsi og tveir starfsmenn Rarik í spennustöðinni á Garðarsvegi til að halda hita á bænum.

Ég var býsna þreyttur þegar ég kom heim. Ég fór í sturtu og henti fötunum mínum í þvottavélina áður en ég lagðist í rúmið. Ég var í sömu stellingu þegar ég vaknaði og ég hafði verið í þegar ég fór að sofa. Ég lá þarna eins og skotinn.

Ég vaknaði á áttunda tímanum morguninn eftir. Hitaveituæðar fóru í sundur á skriðusvæðinu og því var ekki fullur hiti á húsinu en strákarnir í spennistöðinni dældu stöðugt inn í kerfið. Morgunsturtan var samt svolítið köld!

Síðan fór ég út í ferjuhús og var þar allan daginn í alls konar verkefnum. Það þurfti að fara úti í frystihús með menn til að athuga hvort frystivélarnar væru í lagi og svo þurfti að koma á tetra-sambandi í gegnum björgunarsveitarhúsið en það var á skriðusvæðinu. Við settum rafstöð við það um kvöldið til bráðabirgða. Við vorum á nálum þá því maður hélt að næsta skriða kæmi – og það gat vel gerst.“

Lífsreynsla sem líður seint úr minni

Eins og svo margir kveðst Vilhjálmur þakklátastur fyrir að allir skuli hafa sloppið ómeiddir úr hamförunum. „Eignatjónið er mikið en þetta eru bara hlutir. Það er samt leitt til þess að vita að fólk fái ekki að fara í húsin sín og enn aðrir sem vilja ekki fara í þau. Á því hef ég fullan skilning.“

Hann segir einnig merkilegt að hafa séð skriðuna falla. „Svona stórar skriður falla ekki nema kannski á 1000 ára fresti. Þetta er því einstök upplifun í reynslubankann sem líður seint úr minni.“

Og Unimog-inn er kominn suður til Reykjavíkur þar sem gert er við hann. Vilhjálmur hlakkar til að fá hann aftur. „Þetta er öflugur bíll – ég hefði ekki viljað vera á neinu öðru tæki.“

Myndir af Unimog-inum. Aðsendar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.