Sýktum gripum verði slátrað

egilsstadabylid.jpg
Matvælastofnun hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tillögu um að öllum gripum sem greinst hafi með smitandi barkabólgu verði slátrað. Ákvörðun um frekari niðurskurð verði síðan tekin á grundvelli rannsókna sem nú standa yfir.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í gær. Síðan mótefni gegn veirunni greindist óvænt upp á Egilsstöðum á Völlum í september hafa sýni verið tekin á öllum kúabúum á landinu í leit að vísbendingum um herpesveiruna.

„Engin mótefni fundust á öðrum en þeim tveimur búum sem sýkingin hafði þegar greinst á, það er að segja Egilsstöðum og Fljótsbakka á Fljótsdalshéraði. 

Sýni voru einnig tekin úr öllum gripum í Hrísey þar sem enn eru gripir sem að stofni til eru frá innflutningi á sæði og fósturvísum. Engin mótefni fundust í þeim. Jafnframt voru sýni tekin úr öllum nautum á Nautastöð BÍ á Hesti og reyndust þau einnig öll neikvæð. 

Sæði úr nauti frá Egilsstöðum sem verið hafði í Nautastöðinni var rannsakað ásamt sæði úr fleiri nautum. Öll sæðissýnin reyndust neikvæð.“

Í byrjun vikunnar voru tekin blóðsýni úr öllum gripum eldri en sex mánaða á bæjunum tveimur á Héraði. Niðurstöður þeirra rannsókna liggja væntanlega fyrir í næstu viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.