Orkumálinn 2024

Skrifað undir samning við Samtökin '78 í Fjarðabyggð

„Ég verð að hrósa Fjarðabyggð fyrir hversu fljótt og vel þetta gekk fyrir sig. Sveitarfélagið hafði samband í haust og nú er verið að skrifa hér undir,“ sagði Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78.

Fyrr í dag var skrifað var undir samstarfssamning Samtakanna '78 og Fjarðabyggðar en markmiðið er að stórefla kynsegin fræðslu í sveitarfélaginu öllu.

Nánar tiltekið felur hann í sér að samtökin veita sveitarfélaginu ýmis konar ráðgjöf og fræðslu um málefni kynsegin fólks til handa fjölmörgum mismunandi aðilum. Þar á meðal fræðslu til starfsfólks og nemenda grunnskólanna, starfsfólks leikskóla, frístundamiðstöðva og íþróttaþjálfara auk fræðslu til handa öllum stjórnendum Fjarðabyggðar auk gjaldfrjálsrar ráðgjafar til allra ungmenna.

Samtökin '78 hafa undanfarið gert slíka samninga við ýmis sveitarfélög landsins en Fjarðabyggð er það sjötta í landinu sem fær að njóta fulltingis samtakanna við fræðslu og vitundarvakningu á stöðu hinsegin fólks.

Töluvert bakslag hefur komið í baráttu hinsegin fólks fyrir rétti sínum og almennum mannréttindum á allra síðustu misserum bæði hérlendis og erlendis og hafa ófáir lýst áhyggjum sínum af þeirri þróun. Aukin fræðsla á borð við þá sem senn verður í boði í Fjarðabyggð segir Daníel vera lykilbreytu í því sambandi.

Þrír einstaklingar úr ungmennaráði Fjarðabyggðar voru viðstaddir undirritun samningsins en það var meðal annars þaðan sem hugmyndin að aukinni fræðslu spratt upphaflega. Þau Pálína Hrönn, Snjólfur og Elín Eik voru afar ánægð með hröð og góð viðbrögð sveitarfélagsins enda sögðust þau öll hafa vitnað miður góða framkomu eða orðræðu í garð hinsegin fólks í skólum sínum.

Múlaþing senn að bætast í hópinn?

Daníel segir góðar líkur á að Fjarðabyggð verða ekki lengi eitt sveitarfélaga á Austurlandi til að bjóða upp á fræðsluþjónustu Samtakanna '78. Forsvarsmenn Múlaþings hafa líka verið í sambandi við forráðamenn samtakanna vegna sams konar þjónustu í því sveitarfélagi en ekki er langt síðan ungmennaráðið í því sveitarfélaginu lagði til að hinsegin fræðsla yrði stóraukin þar líka.

Daníel segir viðræður enn í gangi en útlit sé fyrir að næsti samningur Samtakanna '78 gæti orðið við Múlaþing.

Hjördís Helga Seljan, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, og Daníel Arnar, framkvæmdastjóri Samtakanna '78 eftir að samningurinn var undirritaður. Bæði lýstu yfir mikilli ánægju sinni en fyrstu fræðslufundirnir gætu jafnvel orðið strax fyrir áramótin. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.