Skólar Fjarðabyggðar opnir eins lengi og hægt er

Skólar Fjarðabyggðar verða opnir eins lengi og hægt er í ljósi smitvarna gegn kórónaveirunni Covid-19 en gerðar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu veirunnar. Bæði þar og á Vopnafirði hefur félagsstarf aldraðra verið fellt niður.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á heimasíðu Fjarðabyggðar í hádeginu. Á blaðamannafundi í morgun tilkynnti Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, að skólahald í háskólum og framhaldsskólum yrði fellt niður auk þess sem takmarkanir yrðu á skólahaldi í leik- og grunnskólum. Frekari ákvarðanir yrðu í höndum sveitarfélaganna sem reka þá.

Í tilkynningu Fjarðabyggðar kemur fram að skólar muni halda uppi starfsemi eins lengi og hægt sé. Komi til lokunar þeirra muni starfsmenn vinna áfram þótt nemendur og/eða starfsfólk verði sent heim vegna sóttvarnaráðstafana.

Á öllum skólastigum er verið að vinna áætlanir um heimanám ef til lokunar kemur. Foreldrar eru hvattir til að styðja við börn sín í heimanáminu. Starfsemi félagsmiðstöðva fellur niður ef til lokunar skóla kemur.

Í skólunum þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að auka hreinlæti og minnka sýkingarhættu, svo sem reglum á afgreiðslu matar breytt, leiðbeiningum á nokkrum tungumálum verið komið upp sem og handspritti. Þrif hafa verið aukin auk þess sem nemendur hafa fengið fræðslu um mikilvægi hreinlætis og handþvottar.

Heimaþjónusta við aldraða og öryrkja auk félagslegri liðveislu verður óbreytt meðan ekki greinist smit. Áhersla er lögð á aukið hreinlæti starfsmanna. Fyrirvari er gerður að skerða gæti þurft þjónustu af öryggisástæðum meðan faraldrinum stendur. Tryggt verði að þeir sem ekki geta verið án þjónustu fái hana samt.

Áður hafði verið tilkynnt um að félagsstarf eldri borgara á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði yrði fellt niður tímabundið. Sama ákvörðun hefur einnig verið tekin á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.