Skoðar héraðsmiðlana til að sjá hvað er að gerast í samfélaginu

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra, heimsótti í gær Austurgluggann/Austurfrétt og Héraðsprent sem öll fagna stórafmæli í ár. Hún segir héraðsfréttamiðla skipta miklu máli til að halda uppi umræðu á sínum svæðum.

„Eitt það fyrsta sem ég geri þegar ég er á ferðinni er að kíkja á héraðsfréttamiðlana til að fá beint í æð hvað er að gerast á viðkomandi svæði.

Héraðsfréttamiðlar gegna mikilvægu hlutverki. Þeir segja frá því sem er að gerast í sínu samfélaginu sem eru oft aðrar frásagnir heldur en við sjáum í landsmiðlunum. Það er til dæmis meira af mannlegum frásögnum í þeim,“ segir hún.

Lilja, sem er ráðherra fjölmiðlunar, kom austur á þriðjudagskvöld og hefur síðan hitt forsvarsfólk fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana á svæðinu. „Eitt af því sem sveitarstjórnarfólkið gagnrýndi var takmarkaður fréttaflutningur af svæðinu. Það er mikilvægt að kynning allra þegna landsins sé hluti af fjölmiðlaumhverfinu, hún fari ekki bara fram í gegnum sérstaka sjónvarpsþætti þar sem ákveðnir landshlutar eru kynntir.

Við viljum heldur ekki að hér séu fjölmiðlaeyðimerkur, landssvæði þar sem engir miðlar starfa og engar fréttir eru sagðar af.“

Austurfrétt fagnar 10 ára afmæli í ár og Austurglugginn 20 ára. Lilja heimsótti ritstjórnina í gær á útgáfudegi en blaðið er prentað í Héraðsprenti á Egilsstöðum. Það fyrirtæki fagnar í ár 50 ára afmæli sínu. Hún fékk því leiðsögn um prentsmiðjuna þar sem verið var að leggja hönd á nýjasta tölublað Austurgluggans.

„Það var mjög áhugavert og skemmtilegt að fara um prentsmiðjuna. Ég þekki vel prentlyktina, pabbi var blaðamaður og mamma prentsmiðju þannig ég ber mikla virðingu fyrir íslensku prentverki. Ég vil óska þeim Gunnhildi og Þránni til hamingju með framsækinn og rótgróinn vinnustað sem um leið er eina prentsmiðjan á stórum hluta landsins.“

Við aðalprentvél Héraðsprents í gær. Frá vinstri: Þráinn Skarphéðinsson prentari og eigandi Héraðsprents, Gunnar Gunnarsson ritstjóri Austurfréttar/Austurgluggans, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Katrín Alfa Snorradóttir, markaðsstjóri Austurgluggans/Austurfréttar og Gunnhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Héraðsprents.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.