Skoða viðgerðir á Selnesi í sumar

Ekki liggur enn fyrir, hvorki af eða á, hvort ráðist verður í endurbætur á götunni Selnesi á Breiðdalsvík í sumar. Verið er að forgangsraða framkvæmdum sumarsins hjá Fjarðabyggð.

Þetta kemur fram í svari sveitarfélagsins við fyrirspurn Austurfréttar. Íbúar á Breiðdalsvík mótmæltu í síðustu viku að ekki stæði til að gera við um 100 metra holóttan kafla á Selnesgötunni þar sem hún liggur að skóla staðarins.

Vildu þeir meina að með því væri sveitarfélagið meðal annars að bregðast loforðum um framkvæmdir sem gefin voru við sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar árið 2018. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitti þá 200 milljónum til framkvæmda í Breiðdal.

Í svari Fjarðabyggðar kemur fram að síðan hafi verið farið í fjölmörg verkefni þar og er bent á malbikun götunnar Sæbergs, umfangsmiklar breytingar á húsnæði grunn- og leikskóla auk endurbóta á gamla leikskólanum þangað sem dagvist aldraðra flutti. Allt hafi þetta verið miklar og nauðsynlegar fjárfestingar.

„Ástand götunar við Selnes er þekkt, sveitarfélagið er meðvitað um að þar er orðinn brýn þörf á úrbótum. Því miður er það svo að fleiri götur í sveitarfélaginu þurfa orðið viðhald, og verkefnum þarf að alltaf að forgangsraða.

Þessa dagana vinnur framkvæmdasvið Fjarðabyggðar að því að meta stöðu mála varðandi gatna framkvæmdir sumarsins. Gatan við Selnes er svo sannarlega einn af þeim sem verið er að skoða með það í huga að fara þar í framkvæmdir í sumar,“ segir í svarinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.