Skoða möguleikann á vindmyllugörðum úti fyrir Austfjörðum

Breskt-bandarískt fyrirtæki skoðar nú möguleikann á að byggja tvo stóra vindmyllugarða úti fyrir Austfjörðum. Alls gætu garðarnir framleitt 2 GW af rafmagni sem seld yrði beint til Bretlands um sæstreng. Fulltrúar fyrirtækisins hafa þegar rætt við íslensk stjórnvöld og sveitarstjórnir á svæðinu.

Fyrirtækið Hecate Independent Power (HIP) var stofnað í fyrra af hinu breska Independent Power Company og Hecate Wind, sem er hluti af stærri samsteypu sem sérhæft sig í stórum verkefnum með endurnýtanlegum orkugjöfum. Verkefnið hérlendis kallast Kári Energy.

Fyrir tveimur vikum var haldið málþing í Reykjavík þar sem farið var yfir möguleikana í vindorku í hafinu úti fyrir Íslandi og sölu þess til Bretlands. Auk fulltrúa frá fyrirtækjunum töluðu bæði breski sendiherrann á Íslandi og iðnaðarráðherra.

Höfn-Reyðarfjörður

Dr. Paul Turner, framkvæmdastjóri HIP, kom daginn eftir austur og hitti meðal annars fulltrúa Fjarðabyggðar en Reyðarfjörður leikur stórt hlutverk í áformunum.

Paul hefur starfað í vindorku í rúma tvo áratugi og leiðir verkefnið. Meðal annars hafa verið skoðaðar hentugar staðsetningar fyrir vindmyllur. Leitin hefur verið þrengd niður í svæðið milli Hafnar í Hornafirði og Reyðarfirði. Í viðtali við Austurgluggann segir Paul athuganir hafa leitt í ljós einkum tvo staði þar sem hvorki fiski- né fragtskip fari um og farfuglar sveigi um en nóg sé af stöðugum vindi.

Áætlanir HIP byggja á að byggja tvo 1000 MW vindmyllugarða sem hvor myndi þekja um 400 ferkílómetra. Þær yrðu um 30 km frá landi og því ómögulegt að sjá þær af ströndinni. Vindmyllurnar yrðu festar með botninn með ankerum en annars haldið stöðugum með flotbúnaði.

Mikil orkuþörf í Bretlandi

Rafmagnið úr þeim yrði síðan leitt beint til Bretlands um sæstreng. Talsmenn verkefnisins segja mikla þörf þar á orku þar sem áform séu um að loka kolaverum, sem framleiði mikið rafmagn, á allra næstu árum og innleiða umhverfisvænni orku. Einkum er horft til þess að selja orkuna til stórfyrirtækja í tækniiðnaði.

Þar sem strengurinn tengist ekki Íslandi hefðu framkvæmdirnar engin áhrif á raforkumarkaðinn hérlendis. Talsmenn verkefnisins segja Íslendinga njóta ágóða í formi nýrra starfa, þjónustu og auðlindagjalda. Þeir telja hægt að framleiða 10-20 þúsund MW með vindmyllum á hafinu úti fyrir Íslandi.

Þjónusta frá Austfjörðum

Áform HIP ganga út á að hefja byggingu vindmyllu garðanna 2024/25 en framkvæmdir taka um tvö ár. Komið yrði með vindmyllurnar ósamsettar til landsins og þær settar saman hér áður en þær yrðu dregnar út á sjó. Horft er til Reyðarfjarðar þar sem fáir staðir hafa nægt dýpi fyrir skipin sem flytja hlutina. Áætlað er að 300 störf yrðu til á framkvæmdatímanum.

Þess utan þyrfti að þjónusta vindmyllugarðana. Áætlað er að 400 störf skapist við það og segir Paul að 80% þeirra yrði á Austurlandi. Gera þyrfti út annað hvort eða bæði þjónustubáta og þyrlur, sem einnig gætu nýst sem björgunarþyrlur. Líklegast er að þessi miðstöð yrði annað hvort á Höfn eða Reyðarfirði. Talsmenn HIP hafa hitt sveitarstjórnarfólk á báðum stöðum sem og í Múlaþingi. Rekstur orkuveranna gæti hafist um 2026/27.

Gagnasöfnun og löggjöf

Næsta skref í verkefninu er að fá að setja upp mælitæki á svæðinu til að safna nánari gögn um vindinn. Eins þarf að finna út hvaða löggjöf nær yfir framkvæmdirnar en engin lög eru til hérlendis um vindmyllur á hafi úti. Þær eru hins vegar til í nágrannalöndum auk þess sem reglur eru um orkuöflun á landi.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á málþinginu að vindorkuvinnsla á hafi hefði nokkrum sinnum verið rædd á fundum fráfarandi ríkisstjórnar og vinna um stefnumótun væri hafin í ráðuneytinu.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugga vikunnar.

Mynd: Siemens

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.