Orkumálinn 2024

Sýknaður af ákæru um ölvunarakstur: Sagðist hafa drukkið viskí eftir að hann kom heim

heradsdomur_austurlands_log_1532625740.gif
Héraðsdómur Austurlands sýknaði nýverið karlmann af ákæru um ölvunarakstur þar sem ekki þóttu hafa verið lagðar fram nægjanlegar sannanir af hálfu ákæruvaldsins fyrir því að hann hefði ekið ölvaður. Ákærði hélt því fram að hann hefði drukkið töluvert af sterku áfengi á milli þess sem hann ók og þar til lögreglan færði hann til sýnatöku.

Atvikið átti sér stað í nóvember 2011. Um klukkan þrjú að nóttu barst lögreglunni á staðnum, sem er í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði, tilkynning um að bíl hefði verið ekið á ljósastaur. Ökumaður var þá farinn af vettvangi en brot eftir tvö höfuð í framrúðu, ljós á bílnum og lyklar í kveikjulás. Par var um borð í bílnum og ók karlmaðurinn. Parið var á leið heim úr samkvæmi.

Upp á gangstétt og yfir vegvísa 
 
Í lögregluskýrslu segir ljóst að vél bílsins hafi gefið vel inn, ekið upp á gangstétt, utan í vegvísa og meðal annars farið yfir einn þeirra. Fyrir dómi bar ákærði að hann hefði gefið bifreiðinni í botn þegar hann var nýlagður af stað og fundist bensíngjöfin festast inni. Um væri að ræða kraftmikla bifreið sem keypt hefði verið nokkrum dögum fyrr. Vitni í samkvæminu sögðu manninn hafa verið ölvaðan og eitt þeirra lýsti að hann hefði tekið „handbremsubeygju“ frá bílastæðinu og út á aðalgötuna.

Ákærði kvaðst hafa farið á heimili þáverandi tengdafjölskyldu sinnar en kærastan aftur í samkvæmið. Þau höfðu rifist fyrr um kvöldið. Hann sagðist hafa verið þar í um „nokkra klukkutíma“ og drukkið þó nokkuð magn af sterku viskíi á þeim tíma.

Um hálftíma eftir að lögreglan var kölluð út var maðurinn færður á lögreglustöð. Þar voru tekin þvag- og blóðsýni og tekin af honum skýrsla. Þar viðurkenndi hann að hafa drukkið tvo eða þrjá litla bjóra á veitingastað fyrr um kvöldið en ekki eftir miðnættið.

Ekki spurt um drykkju eftir bílferðina 
 
Fyrir dómi var ekki lögð fram hljóðupptakta af yfirheyrslum yfir ákærða og þáverandi unnustu hans þótt hún væri til. Aðeins skrifleg samantekt, sem ekki var orðrétt, af því sem lögreglan taldi skipta máli. 

Lögreglumenn, sem komu að málinu, sögðu fyrir dómi að ekki væri vitað hvort kærði hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk en það var talið ólíklegt. Þeir mundu ekki hvort ákærði hefði verið spurður sérstaklega út í því en mundu ekki eftir að hann hefði sagt sérstaklega frá því. 

Í beiðni lögreglu um rannsókn á sýnum úr manninum segir að ekki sé vitað hvort hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk en það sé þó talið ólíklegt. „Virðist þetta styðja það að ákærði hafi hvorki verið spurður né tjáð sig að eigin frumkvæði um áfengisdrykkju eftir að akstri lauk,“ segir í dómnum.

Niðurstöður rannsóknar bentu til ölvunar þegar aksturinn átti sér stað 
 
Í ákæru, sem byggði á gögnum frá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, er því haldið fram að áfengismagn í blóð ákærða hafi verið 1,5 prómill þegar bílnum var ekið. Sérfræðingar stofunnar sögðu útilokað að viðkomandi hefði getað drukkið svo mikið af sterku áfengi eins og þurft hefði til fyrir mælinguna svo skömmu eftir aksturinn. „Kærði hefur því verið ölvaður þegar hinn meinti ölvunarakstur átti sér stað,“ segir í niðurstöðum stofunnar.

Í dómsniðurstöða er bent á að sönnunarbyrði um óvissuatriði hvíli á ákæruvaldinu. Við rannsókn málsins hafi til dæmis ekki hafi verið kannað hversu langur tími leið frá óhappinu þar til það var tilkynnt. Vitnum bar ekki saman um tímasetningar.

Ekki lögfull sönnun á sekt
 
Ákærði hafi ekki verið staðinn að verki við aksturinn og þótt aksturinn hafi leitt til umferðaróhapps skipti það ekki máli við sönnun á sekt ákærða, meðal annars því engin tæknileg rannsókn hafi farið fram á bílnum. Þá verði sakfellingin ekki reist á því þótt viðkomandi hafi viðurkenni að hafa drukkið áfengi á veitingastað og síðar keyrt milli húsa fyrr um kvöldið.

„Hversu ólíklega sem það almennt kann að hljóma að menn neyti áfengis eftir að hafa lent í umferðaróhappi, telst að áliti dómsins ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að skýring ákærða á niðurstöðum áfengismælinga í blóði hans og þvagi fái staðist, enda hafa ekki í málinu verið færð fram gögn eða framburðir vitna sem hrakið geta þann framburð ákærða,“ segir í dómsniðurstöðunni.

Þar með telst ekki hafa komið fram lögfull sönnun á sekt viðkomandi. Hann var því sýknaður. Allur sakarkostnaður og þóknun skipaðs verjanda greiðast úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.