Hátt í 200 manns leita í Vopnafirði

Björgunarfólk leitar enn að skipverja sem talinn er hafa fallið fyrir borð af fiskiskipi sem kom til hafnar á Vopnafirði fyrri partinn í gær. Aðstæður til leitar eru eins góðar og hægt er að vonast eftir.

Um umfangsmikla leit er að ræða en Jón Sigurðsson, formaður Björgunarsveitarinnar Vopna, segir að alls taki 187 manns þátt í aðgerðum. Stærstur hluti þess hóps kemur frá björgunarsveitum af öllu Austurlandi og allt norður til Húsavíkur. Liðinu er skipt í 45 leitarhópa.

Veður í Vopnafirði er með besta móti til leitar, en bjart er yfir og stillt. Að sögn Jóns hefur verið unnið út frá sama leitarsvæðinu frá því aðgerðir hófust í bítið í morgun, en um er eða ræða Vopnafjörð allan, frá Bjarnarey, yfir í Strandhöfn og inn í Sandvík.

Leitað er á um 20 bátum og skipum, þar af þremur björgunarskipum, og flugvél Landhelgisgæslunnar fór í loftið frá Vopnafjarðarflugvelli til leitar laust fyrir hádegi. Þá er einnig notast við flygildi við leitina, sem og neðansjávardróna frá björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði. Þá ganga leitarhópar meðfram fjörum.

Jón segir að farið verði skipulega yfir leitarsvæðið núna fram eftir degi og staðan síðan endurmetin eftir það.

Mynd frá leitinni: GG


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.