Skiptir ekki máli fyrir ferðamanninn hvar Íslandsferðin byrjar

Styrkja þarf innviði ferðamennsku á Austurlandi til að geta tekið vel á móti væntanlegum farþegum með beinu flugi Condor flugfélagsins milli Frankfurt og Egilsstaða næsta sumar að sögn eigenda þýskrar ferðaskrifstofu sem hefur trú á að flugið geti vel undið upp á sig.

„Flestir sem heimsækja Ísland vita í raun mest lítið um landið. Þess vegna skiptir ekki máli hvort þeir lenda á Egilsstöðum eða Keflavík, svo framarlega sem þeir geti keyrt af stað og séð það helsta.

Það er hæpið að farþegarnir verði á Egilsstöðum alla vikuna, þeir vilja enn sjá Gullfoss og Geysi. Íslandsferðin er það dýr að flestir heimsækja landið aðeins einu sinni. Þess vegna skiptir flugvöllurinn ekki máli.

Þetta segir Anka Bröcker, einn eigenda ferðaskrifstofunnar Island Protravel sem undanfarin 27 hefur selt Þjóðverjum ferðir til Íslands. Hún er meðal þeirra sem veitt hafa Austurbrú ráð við markaðssetningu Austurlands sem í gær skilaði því að þriðja stærsta flugfélag Þjóðverja hóf sölu á beinu flugi næsta ár. Anka þekkir því vel til þróunar íslenskrar ferðaþjónustu og þýska markaðarins.

„Frá 2014/15 höfum við sé margt ferðafólk frá Asíu og Ameríku koma til Íslands, lenda í Keflavík, dvelja í 4-5 daga og eru bara á Suðurströndinni. Þjóðverjar eru hins vegar lengur á landinu og ferðast meira um það. Ferðirnar sem við seljum eru að meðaltali 12 dagar og 14 dagar hjá skrifstofunni okkar í Sviss.

Ferðamennskan er orðin undirstöðu atvinnugrein á Ísland en það þarf að gera meira fyrir hana utan Reykjavíkur. Hringvegurinn er ágætur en ekki nóg,“ segir Anka og bætir við að eftir miklu sé að slægjast á á þýska markaðinum sem telji 83 milljónir manna.

Fram kemur í máli hennar að Þjóðverjar ferðist öðruvísi en aðrar þjóðir. Meðan Norðurlandaþjóðir finni sínar ferðir og bóki á netinu heimsæki Þjóðverjar ferðaskrifstofur og eigi jafnvel þar sinn trausta fulltrúa sem þeir fái til að móta fríið sitt ár eftir ár.

Þörf á meiri gistingu

Hún segir að Austfirðingar þurfi að efla sína innviði til að taka á móti farþegum Condor, sérstaklega ef vel gengur til framtíðar. „Ef við gefum okkur að 200 farþegar komi með hverri flugvél og ferðist í pörum þá þarf 100 bílaleigu bíla og 100 hótelherbergi. Á Egilsstöðum eru þegar nokkrar bílaleigur og það á ekki að vera stórmál að ferja bíla milli staða. Hótelplássið er þess vegna það sem við horfum mest á.

Síðan þarf líka að horfa á áfangastaðina sjálfa. Við sáum hvað gerðist á Þingvöllum fyrir nokkrum árum þegar allt fylltist á bílastæðinu. Þar er ástandið orðið gott núna en við getum hugleitt hvað gerist ef allir farþegarnir fara í einu að Hengifossi eða niður á Borgarfjörð, til viðbótar við þá umferð sem er þar núna.

Við seljum bæði ferðir fyrir fólk sem vill keyra sjálft en líka rútuferðir. Mögulega þurfum við leiðsögufólk í þær ferðir.

Við seljum Ísland út á náttúruna, ekki lúxushótel og við vitum að hún er frábær hvar sem er á landinu. Það er mikið af lítt þekktum stöðum. Ég hef mikla trú á fjörðunum ef unga kynslóðin er tilbúin að byggja þar upp. Það má bæta í afþreyinguna á svæðinu.“

Þarf þolinmæði

Condor ætlar að fljúga til Egilsstaða á þriðjudögum og Akureyrar á laugardögum. Anka vonast til að flugunum fjölgi í framtíðinni því það gefi ferðaskrifstofunum meiri möguleika þótt styrkur sé að hafa flug á ólíkum dögum á svipuðum slóðum.

„Það er ekki gott að stóla á ákveðið flugfélag eða ferðadaga. Með tveimur flugum á viku bætum við boðið upp á allt aðrar vörur. Vikuferð um Ísland er gerleg en hún er hraðferð. Með tveimur flugum væri hægt að bjóða fólki að dvelja í 3-4 daga á Egilstöðum og skoða helstu staði í kring, svo sem Djúpavog og Mývatn, eða lengja ferðina upp í 10 daga og ná að skoða landið betur.

Ég held við sjáum vart Icelandair fara að fljúga til Egilsstaða, félagið hefur ekki það margar vélar. Mér finnst líklegra að önnur þýsk eða bresk félög fari inn á markaðinn. En til þess þurfa innviðirnir að vera til staðar.“

Hún segir þarft að dreifa ferðafólki betur um Ísland yfir allt árið. „Ísland er farið að vekja athygli okkar viðskiptavina á veturna. Til framtíðar væri gott flytja hluta þeirra sem lendir í Keflavík annað og dreifa ferðafólkinu betur yfir landið þá, það er allt fast í kringum Reykjavík.“

Anka varar Austfirðinga við of mikilli bjartsýni, að byggja upp alþjóðaflug kosti þolinmæði. „Ísland er dýrt og það eru líkur á áframhaldandi verðhækkunum, 10% milli ára, sem er mikið stökk fyrir ferðir sem þegar eru dýrar. Við eigum eftir að sjá hvað fólk er tilbúið að borga fyrir fríið á næsta ári en til framtíðar sé ég mikla möguleika í kringum Egilsstaði.“

Svo virðist sem Island Protravel sé þegar byrjað að kynda undir Austurlands áhuganum, nýjasta greinin á heimasíðu þess fjallar um Austurland. „Tímasetningin er hrein tilviljun. Við sérhæfum okkur í Íslandi sem þýðir að við þurfum að vera með hluti sem ekki allir vita af, það geta allir talað um Geysi en færri um Borgarfjörð. Við vorum annars mjög ánægð að fá fulltrúa Austurbrúar hingað í vor, það sagði okkur að það væru hlutir að gerast á Austurlandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.