Skerða veiðikvóta hreindýra um 16 prósent

Ákveðið hefur verið að skera veiðikvóta hreindýra á næsta ári meira niður en fyrstu tillögur Náttúrustofu Austurlands (NA) gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt fyrstu tillögunum í síðasta mánuði var lagt til að minnka veiðikvótann um 9 prósent frá yfirstandandi ári en nú hefur verið ákveðið að skera kvótann niður um 16 prósent. Aðeins verða heimilar veiðar á 1021 dýri næsta ár.

Ástæða skerðingarinnar sú að samkvæmt talningum eftirlitsmanna virðist hreindýrastofninn vera nokkuð minni í heildina en áætlun þessa árs tók mið af eða um fjórtán prósent færri dýr alls. Ekki hafi verið hugmyndin með tillögum síðasta árs að fækka í hreindýrastofninum sem allt bendir þó til að hafi orðið raunin. Laga þurfi þá skekkju og því séu veiðar takmarkaðar meira en ella.

Samráð við hagsmunaaðila

Að þessu sinni hafði NA samráð við hagsmunaaðila vegna veiðimats næsta árs og bárust alls fimm athugasemdir við fyrstu tillögur að sögn Skarphéðins G. Þórissonar, sérfræðings hjá NA.

„Athugasemdir voru meira og minna á sama veg að jafnvel þyrfti að vernda meira en við gerum. Það gera sér allir grein fyrir stöðunni og engin sérstök deilumál sem komu upp.“

Helsta vandamálið segir Skarphéðinn vera hversu eftirlit og talning sé erfið á sumum stöðum og þá fyrst og fremst í fjörðunum. Þar þarf að nota flugvélar við talningu og sökum þess hve nálægt fjöllum verður að fljúga þarf flugveður að vera fyrsta flokks sem ekki er alltaf raunin.

„Þetta getur þýtt að nokkur tími líði milli talninga á samliggjandi veiðisvæðum og þeir staðsetningarmælar sem við erum með á nokkrum dýrum gefa vísbendingar um að flakk dýranna milli svæða sé meira en talið hefur verið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.