Skemmdir á Núpi eftir páskastorm

Skemmdir urðu á íbúðarhúsi og hlöðu á bænum Núpi yst í norðanverðum Berufirði í óveðri um helgina. Rúður brotnuðu í húsinu og þakplötur fuku af hlöðunni.

„Það geta orðið ægilega krappt hér í norðan- og norðvestanátt, þá myndast hnútar úr dalnum fyrir ofan,“ segir Björgvin Gunnarsson, bóndi að Núpi.

Hvessa tók á svæðinu um kvöldmat á páskadag en Björgvin segir veðrið hafa orðið hvað verst um klukkan fjögur aðfaranótt annars í páskum. Samkvæmt vindmæli á Streiti þar skammt frá mældust hviður þar upp á 40 m/s.

Á Núpi stóð vindurinn úr hánorðri og þar fuku þakplötur af hlöðunni á nýja fjósið og skemmdu það. Þá brotnuðu allar rúður á íbúðahúsinu sem snéru upp í vindinn, þar af bæði glerin í einni. Björgvin segir að vindurinn hafi náð í möl úr heimreiðinni og feykt í gluggana.

„Þetta er dálítið tjón. Það var alveg brjálað hérna, en svo var nánast logn á milli. Svona sprengjur eru það hættulegasta,“ segir hann.

Hann segist ekki óvanur því að hvasst verði við þessar kringumstæður á Núpi og hefur byggt upp húsin þar miðað við veðrin. „Þetta er mjög staðbundið hér á útströndinni. Hlaðan er eiginlega eina húsið sem er fyrir þann tíma sem ég byrjaði að byggja hér upp, ég þarf að skipta um þak á henni í sumar. Annars eru öll hús hér steypt upp, það þýðir ekkert annað.“

Í byrjun árs brast líka á með miklum norðvestan stormi en þá mældust hviður upp á 64 m/s á Streiti. „Sú veðurspá var með þeim verri sem maður hefur séð. Það var þó bara lakkið á bílunum sem skemmdist, það dugði ekki til þótt þeir væru í skjóli, það mynduðust svo miklir sviptivindar hér. Ég hef aldrei heyrt meiri hávaða í háloftunum en þá, það var stöðugur sjávarniður.“

Víðar varð hvasst aðfaranótt mánudags eystra. Um það leyti sem hvað hvassast varð á Núpi sýndi vindmælir í Hamarsfirði 67 m/s í hviðum. Sá mælir hefur stundum gefið sig í miklu hvassvirði en hann stóð af sér þennan storm.

Á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði voru björgunarsveitir kallaðar út til að hefta fok. Á fyrrnefnda staðnum fór vindhraðinn í rúma 40 m/s í hviðum. Þá var björgunarsveitin Vopni kölluð út að kvöldi páskadags til að sækja ökumann sem lenti í vandræðum þegar veðrið versnaði á Vopnafjarðarheiði. Honum var fylgt til Vopnafjarðar.

Myndir: Björgvin Gunnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.