Skaðabótamáli Sterna gegn SSA vísað frá dómi

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóm Austurlands um að vísa frá skaðabótamáli sem fyrirtækin Sterna Travel og Bílar og fólk höfðuðu gegn Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Fyrirtækin kröfðust tæplega 600 milljóna króna í bætur vegna lögbannsmáls sem SSA höfðaði gegn akstri fyrirtækjanna milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða sumarið 2012.

Í árslok 2011 samdi Vegagerðin við SSA um einkaleyfi á almenningssamgöngum, sem fól í sér að öðrum var óheimilt að stunda reglubundna fólksflutninga á svæðinu. Aksturinn var boðinn út á vegum SSA fyrir sumarið.

Fyrirtækið Bílar og fólk, móðurfélag Sternu sem stofnað var 2011, hafði ekið fyrir Vegagerðina en fór að keyra hringferðir með ferðamenn. Hluti af þeim voru daglegar ferðir yfir sumartímann milli Hafnar og Egilsstaða.

SSA taldi akstur Sterna brjóta gegn einkaleyfinu og fékk samþykkt lögbann 18. júlí 2012. Þrátt fyrir það hélt Sterna akstrinum áfram og hafði lögregla tvívegis afskipti af bílum fyrirtækisins. SSA þurfti í kjölfarið að höfða mál til að staðfesta lögbannið en tapaði því, fyrst fyrir héraðsdómi í maí 2013 en síðan í Hæstarétti í lok nóvember sama ár.

Kröfur upp á tæpar 600 milljónir

Bílar og fólk og Sterna höfðuðu skaðabótamál í kjölfarið og kröfðust 589 milljóna í bætur, auk dráttarvaxta. Fjárhæðin byggði á töpuðum hagnaði fyrir árin 2012 og 13, framtíðartjóni og ímyndarskaða sem það hefði orðið fyrir vegna lögbannsins og fjölmiðlaumfjöllunarinnar. Yfirmatsmenn féllust þó ekki á það og töldu eðlilegra að krafan næmi 64 milljónum þar sem tekið væri tillits til reksturs áranna 2013 og 14.

Fyrirtækin höfðuðu málið sameiginlega á þeim forsendum að þau skiluðu samstæðureikningi, stæðu saman að sölu undir merki Sterna og yrði því ekki skilið á milli þeirra. SSA krafðist hins vegar að málinu yrði vísað frá á þeim forsendum og taldi að fyrirtækin ættu hvort um sig að leggja fram sjálfstæða kröfu. Málatilbúnaðurinn væri þannig að ekki væri hægt að aðgreina með skýrum hætti á hvaða forsendum hvort fyrirtækið byggði kröfur sínar.

Sækjandi getur ekki valið hvernig hagkvæmast sé að reka málið

Héraðsdómur Austurlands tók undir málflutning SSA. Í dóminum er vísað til þess að á fyrri stigum málsins hafi fyrirtækjunum verið gert það ljóst að þar sem gagnaöflun í málinu væri þá ekki lokið væri ekki hægt að hafna sameiginlegri aðild þá en þau yrðu að rökstyðja betur að þau ættu óskipt réttindi þannig málinu yrði ekki vísað frá á síðari stigum.

Niðurstaða dómsins er að fyrirtækin hafi ekki bætt úr því en á móti séu ýmsir þættir sem bendi til aðskilnaðar. Þannig hafi félögin ekki verið samsköttuð árin 2011-14 auk þess sem sveiflur hafi verið í samstæðunni, tengslin jafnvel rofnað á tímabili. Ekki eru til endurskoðaðir ársreikningar Sterna frá þessu tímabili og bendir dómurinn á að þótt móðurfélagið geri samstæðureikning hafi það lítið með óskipt réttindi að gera. Þá liggi ekkert fyrir um að akstur og sala hafi falið í sér samrekstur.

Dómurinn ítrekar að sækjendur máls geti ekki valið að gera það sameiginlega í hagræðingarskyni. Þessir annmarkar hafi það að verkum að erfitt sé fyrir SSA að grípa til varna og annmarkinn á málatilbúnaðinum slíkur að vísa verði málinu frá dómi.

Dómur héraðsdóms lá fyrir í lok síðasta árs og áfrýjuðu fyrirtækin honum til Landsréttar sem staðfesti dóminn nýverið. Í dómi Landsréttar segir að hvernig í málatilbúnaðinum sé gerð viðhlítandi grein fyrri hvernig lögbannið hafi beinst að hagsmunum í óskiptri sameign né rökstutt hvernig rétturinn til skaðabóta sé óskiptur. Þótt félögin eigi erfitt með að sundurgreina tjón sitt réttlæti það ekki samaðild. Því sé kröfugerðin þeim annmörkum háð a rétt sé að vísa málinu frá.

Fyrirtækin voru dæmd til að greiða málskostnað á báðum dómsstigum, alls 3,2 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.