Orkumálinn 2024

Sjúkrabíll á Borgarfirði eykur öryggi íbúa og gesta

Íbúar á Borgarfirði eystra hafa fengið afhentan sjúkrabíl. Hann eykur öryggi gesta og íbúa en áður þurfti sjúkrabíll að koma frá Egilsstöðum ef mikið lá við. Hópur sjálfboðaliða, sem fengið hefur þjálfun, sinnir þar fyrstu hjálp.

Bílinn kemur að láni frá slökkviliði Fjarðabyggðar. Hann hefur verið lítið notaður þar um hríð og verður á Borgarfirði eins lengi og hans er ekki þörf annars staðar.

„Þetta er aukabíll á austursvæði og er á forræði slökkviliðs Fjarðabyggðar. Guðmundur Helgi (Sigfússon) slökkviliðsstjóri, bauð okkur að geyma bílinn hér. Hann verður hér meðan ekki þarf að nota hann annars staðar, sem við vonum að verði aldrei,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Undir það tekur Helga Björg Eiríksdóttir, íbúi á Borgarfirði. „Við vonum að við þurfum aldrei að setja hann í gang, nema til að viðra hann.“

Ekki pláss fyrir börur í Land Rover-num

Helga Björg tilheyrir vettvangsliðum á Borgarfirði en það er hópur sjálfboðaliða sem fengið hefur þjálfun í fyrstu hjálp. Sjúkrabíllinn verður í umsjá hópsins. Hópurinn er mikilvægur því læknar og önnur aðstoð er á Egilsstöðum. Leiðin þangað er um 70 km yfir Vatnsskarð eystra. Stór hluti vegarins er enn á möl og tekur um klukkutíma að keyra.

Til þessa hefur þurft að senda sjúkrabíl frá Egilsstöðum. Bíll á Borgarfirði ætti því að stytta viðbragðstímann. „Nú getum við flutt sjúkling á móti bílnum frá Egilsstöðum og það getur stytt tímann mikið. Vettvangsliðarnir hafa ekkert farartæki nema Land Rover björgunarsveitarinnar og það er ekki hægt að flytja sjúkling á börum í honum,“ útskýrir Helga Björg.

Í hópnum eru átta sjálfboðaliðar sem upphaflega koma allir úr björgunarsveitinni Sveinunga. Þeir hafa rétt til að veita fyrstu hjálp og annast sjúklinga uns annað heilbrigðisstarfsfólk kemur á vettvang.

„Við fórum á námskeið og vorum tilbúin að vera í þessum hóp. Það hefur ekki alltaf verið létt, við höfum fengið mörg þung útköll. Við fáum stuðning eftir þau, það hafa verið haldnir rýnifundir og við getum leitað til sálfræðings og annarra hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Það er haldið vel utan um okkur,“ segir hún.

Forgangsraðar frá Borgarfirði

Borgfirðingar voru um árabil án hjúkrunarfræðings en nokkrir mánuðir eru síðan ráðið var í 50% starf þar. „Ég vinn hálfan daginn og er með móttöku tvisvar í viku,“ segir Friðgerður Ósk Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Verkefnin á Borgarfirði duga reyndar ekki til að fylla upp í 50% starf en þess vegna tekur hún að sér fleiri verk fyrir HSA. „Ég hef aðallega verið í símsvörun fyrir Austurland allt. Borgfirðingar eru svo hraustir, ég hefði ekkert að gera ef ekki væri fyrir símsvörunina. Það skiptir samt máli fyrir íbúana að hafa einhvern á staðnum. Í vetur var vegurinn yfir Vatnsskarð lokaður fjóra daga í röð.“

Í gegnum það starf hefur Friðgerður komið að viðbrögðum eystra vegna Covid-19 faraldursins. Hjá HSA hefur sá háttur verið á að allir sem óska eftir tíma á heilsugæslu fá fyrst símtal við hjúkrunarfræðing sem metur hvert næsta skref eigi að vera. Þá hafa hjúkrunarfræðingar metið í gegnum síma hverjir fari í próf vegna gruns um Covid-19 smit.

„Ég hef verið í þessari forgangsflokkun ásamt fólki víðar að. Þeir sem hringja inn á heilsugæsluna annars staðar á Austurlandi hafa ekki hugmynd um að þeir séu að tala við mig á Borgarfirði.“

En þótt Borgfirðingar séu hraustir segir Friðgerður skipta miklu máli að hafa hópinn til staðar. „Ég vinn ein megnið af vetrinum og það skiptir máli að þurfa ekki að standa ein þegar alvarleg slys eða veikindi koma upp.“

Haraldur Geir afhendir Helgu Björgu lyklana að sjúkrabílnum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.