Orkumálinn 2024

Sjór gengið á land í Neskaupstað og Eskifirði

Sjór hefur gengið á land í Neskaupstað og á Eskifirði í miklu roki í dag. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að hefta fok. Enn er von á að bæti í vindinn.

„Þetta er mesti vindur sem komið hefur hér í 1-2 ár. Það eru miklir byljir núna,“ sagði Hlynur Sveinsson, íbúi í Neskaupstað þegar Austurfrétt hafði tal af honum á sjöunda tímanum. Um það leyti var björgunarsveitin Gerpir kölluð út til að hefta rok.

Mjög stórstreymt hefur verið þar í dag en flóðið náði hámarki um klukkan tvö, áður en fór að bæta í vindinn að ráði. „Þetta hefur verið almennt sjórok eins og bæjarbúar þekkja í svona vindi en mér vitanlega liggja ekki nein hús nærri fjörunni undir skemmdum enn sem komið er.“

Á Eskifirði náði sjórinn upp að bryggjunum á háflóði um klukkan fjögur. „Þetta er mikið flóð en sem betur fer er ekki sama vindátt og 2015. Þá var líka háflóð og mesti vindur á sama tíma,“ segir Sævar Guðjónsson á Mjóeyri.

Þar hefur einnig bætt í vind eftir að byrjaði að fjara. „Sjórinn hefur gengið aðeins hérna upp á Mjóeyrina, en ekki mikið.“

Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað um klukkan hálf eitt í dag og yfir Fagradal um hálf fjögur. Þá var björgunarsveitin Bára á Djúpavogi kölluð út á sjötta tímanum til að hjálpa ferðalöngum í vanda.

Samkvæmt veðurspám getur enn átt eftir að bæta í vind í kvöld og ekki von á að hann gangi niður að ráði fyrr en eftir miðnætti.

Mynd: Hlynur SveinssonI

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.