Orkumálinn 2024

Sjómenn bíða eftir niðurstöðum skimunar

Skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað bíða þess í Norðfjarðarhöfn að niðurstaða skimunar fyrir covid-19 veirunni meðan áhafna þeirra liggi fyrir áður en þau halda til kolmunnaveiða.

Samkvæmt frétt á vef Síldarvinnslunnar fóru 20 sjómenn af skipunum Berki, Beiti og Bjarna Ólafssyni í skimun á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og íslenskrar erfðagreiningar á laugardag. Nú er beðið eftir niðurstöðum þeirra.

„Brugðist var mjög skjótt við beiðni okkar og var skimuninni komið við með skömmum fyrirvara. Við viljum senda Íslenskri erfðagreiningu og HSA okkar bestu þakkir fyrir,“ er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar.

Hann áréttar að eftir sem áður verði að virða hertar umgengnisreglur vegna covid-19 faraldursins um borð í skipunum. „Þó skimun leiði í ljós að menn séu ekki sýktir, geta þeir samt borið veiruna þannig að öllum reglum verður að fylgja í hvívetna.“

Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir er áætlað að halda til kolmunnaveiða á Gráa svæðinu suður af Færeyjum. „„Þetta hafa menn aldrei upplifað áður, en það er gríðarlega mikilvægt að haldið sé til veiða á fjarlæg mið á sóttfríu skipi.

Í fyrra hófum við veiðar á gráa svæðinu 6. apríl og á undanförnum árum hefur veiði hafist þarna á bilinu 5.-12. apríl. Við höfum að vísu ekki fengið neinar fréttir af veiði þarna núna. Það er ekki óalgengt að á þessu svæði hafi verið byrjað að veiða geldfisk sem heldur sig þarna en síðan hefur göngufiskurinn komið inn á svæðið og veiði oft verið góð,“ segir Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.