Skip to main content

Bjargaði tveggja ára systur sinni úr sjónum með miklu snarræði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2025 10:50Uppfært 11. ágú 2025 13:16

Ellefu ára drengur, Hafþór Freyr Jóhannsson, sýndi hugrekki og snarræði þegar hann kastaði sér út í sjó til að bjarga tveggja ára systur sinni sem fallið hafði út af bryggjunni við Beituskúrinn í Neskaupstað fyrir skömmu. Skipti sköpum að Hafþór hafði sótt skyndihjálparnámskeið fáeinum mánuðum fyrr.

Atvikið átti sér stað á lokadegi Neistaflugshátíðarinnar í Neskaupstað og var þétt setið bæði innan- og utandyra á veitingastaðnum Beituskúrnum en fyrir ókunnuga þá liggur ný glæsileg bryggja beint út af útiveitingasvæði staðarins.

Fjölskyldan öll hafði farið að fá sér í svanginn á veitingastaðnum þennan fallega dag þegar atvikið varð og fékk Hafþór Freyr það verkefni að hafa auga með systur sinni meðan foreldrarnir pöntuðu matinn að sögn Lindu Maríu Emilsdóttur, móður barnanna.

Gerðist á augabragði

„Við erum þarna að koma okkur fyrir og panta matinn. Í einu vetfangi er Snæbjörg Lóa komin alla leið út á bryggjuendann og fellur beint út í sjó en Hafþór var að fylgjast grannt með henni. Hann kallar umsvifalaust á hjálp en bíður ekki boðanna heldur hendir sér strax sjálfur út í sjóinn á eftir systur sinni. Það gekk vonum framar því hann náði henni strax og synti með hana að stiga á bryggjunni þar sem þeim var svo hjálpað upp.“

Ekkert virtist ama að börnunum tveimur þegar upp var komið nema kuldi en Linda segir að umsvifalaust hafi verið hringt á Neyðarlínuna og farið upp á sjúkrahús til skoðunar.

„Hafþór var kominn með Snæbjörgu upp að stiganum á augabragði og ekkert virtist ama að þegar upp var komið nema þeim var auðvitað svolítið kalt. Henni hafði tekist að koma í veg fyrir að fara með andlitið í kaf enda hefur hún mikið verið í sundi stelpan svo hún vissi hvað átti að gera. Eftir skoðun á sjúkrahúsinu varð ljóst að ekkert væri að en fylgst var með um stund að þeim væri að hlýna. Svo fengu þau bæði að fara og við héldum strax á stórtónleika Neistaflugsins en misstum reyndar af strákunum í VÆB.“

Skyndihjálp skiptir sköpum

Linda segir Hafþór Frey hafa sérstaklega talað um það í kjölfar björgunarinnar hve gott hefði verið að hann fór á skyndihjálparnámskeið snemma í vor því þannig vissi hann hvaða viðbrögð voru nauðsynleg í þessum aðstæðum.

„Hann sagðist vel muna hvað hann lærði þar og hvað ætti að gera og það hefði hjálpað mikið í þessu tilfelli. Við erum ekki síst stolt af því að Hafþór er almennt sjóhræddur en lét þá hræðslu lönd og leið þegar reyndi á. Ekki síður skipti máli að Snæbjörg Lóa hefur mikið verið í sundi og kunni að halda sér á floti. Við erum afar stolt af þeim báðum og þetta sýnir kannski vel hvað það skiptir miklu að kunna einhverja skyndihjálp. Jafnvel yngsta fólkið býr lengi að þeirri vitneskju sem fæst á slíkum námskeiðum.“

Systkinin saman á góðri stundu fyrr í sumar en sumarið 2025 verður líklega eftirminnilegt í hugum þeirra beggja um langt skeið. Mynd Aðsend