Sjö mánaða dómur fyrir að vera gripinn með tæp fjögur kíló af hassi

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann til sjö mánaða refsingar fyrir að hafa verið gripinn af tollvörðum á Seyðisfirði með tæp fjögur kílógrömm af hassi.

Tollverðir gripu manninn um miðjan febrúar með tæp 3,9 kg af efninu í farangri sínum þegar hann var á leið í Norrænu sem var á leið til Færeyja.

Maðurinn var strax úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og síðan farbann sem rann út eftir páska, um það leyti sem dómurinn var kveðinn upp.

Maðurinn var ákærður fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni þar sem hámarksrefsing fyrir vörslu fíkniefna er sex ár. Í almennum hegningarlögum er hins vegar kveðið á um allt að 12 ára refsingu fyrir sölu og dreifingu efna.

Dómurinn telur brot mannsins alvarlegt en ekki hafi verið um bráðhættulegt efni að ræða. Þá er það talið manninum til tekna að hafa játað brot sitt skýlaust og vera með hreina sakaskrá.

Hann var því dæmdur til sjö mánaða fangelsisvistar en af henni eru fimm mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Tveggja vikna gæsluvarðhaldið dregst síðan frá refsitímanum. Þá þarf maðurinn að greiða tæpar 150 þúsund krónur í sakarkostnað.

Í dóminum kemur fram að allnokkur lögreglurannsókn hafi farið fram á málinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar