Sjö í sóttkví en ekkert smit

Sjö einstaklingar á Austurlandi eru í sóttkví samkvæmt tilmælum Almannavarna til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19. Enn hefur ekki greinst smit á svæðinu. Almannavarnir á Austurlandi hafa nýtt síðustu daga til að undirbúa viðbrögð þegar og ef smit kemur upp á svæðinu.

„Við teljum okkar innviði sterka. Skipulag okkar um aðgerðir þegar og ef á reynir eru komnar vel á veg að því er við teljum. Við erum búin að setja upp ýmsar sviðsmyndir um það sem gerst getur og hvaða möguleika við höfum,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Kristján Ólafur er talsmaður Almannavarnanefndar Austurlands sem fundað hefur reglulega frá því í lok janúar. Umdæmi nefndarinnar nær frá Vopnafirði til Djúpavogs, líkt og starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA). „Á fundunum eru fulltrúar þeirra sem hafa hlutverk í aðgerðum vegna veirunnar, meðal annars frá HSA, Landsbjörgu og Rauða krossinum, Isavia vegna Egilsstaðaflugvallar og Smyril Line vegna Norrænu og eins fulltrúar tollsins.

Auk þeirra sitja, bæjar-, sveitarstjórar og slökkviliðsstjórar í almannavarnanefnd, en megináherslan á fundunum hefur verið að upplýsa og samræma aðgerðir milli stofnana og félagasamtaka sem hlutverk hafa í áætlunum, en fundarmenn allir hafa vægi til að taka ákvarðanir um næstu skref,“ útskýrir Kristján.

Sóttvarnahús

Framan af hefur vinna nefndarinnar einkum snúist um viðbrögð ef í gegnum Egilsstaðaflugvöll eða með Norrænu til Seyðisfjarðar kæmu annað hvort einstaklingar sem þyrftu í sóttkví eða væru smitaðir. Þannig hafa verið á svæðinu skilgreind sérstök sóttvarnahús þar sem hægt er að koma fólki fyrir sem ekki á í önnur hús að vernda, eða ef ófærð hamlar því að hægt sé að flytja fólk milli svæða.

Fyrstu tilfelli kórónaveirunnar hérlendis tengdust öll einstaklingum sem komu af ákveðnum landssvæðum erlendis og þá öðrum sem umgengust þá. Allra síðustu daga hefur veiran smitast milli Íslendinga.

Þeim veikustu sinnt utan fjórðungs

Sjö einstaklingar eru í heimasóttkví á Austurlandi, nokkur sýni hafa verið tekin en enn hefur ekkert staðfest smit verið staðfest, samkvæmt tölum sem fengust frá HSA rétt fyrir klukkan ellefu í morgun. Læknar og hjúkrunarfólk HSA sjá um að greina smit á svæðinu. Kristján segir starfsfólkið vera búið undir það og greiningar eigi að geta gengið hratt og vel. Það taki ákvarðanir um meðhöndlun þeirra sem veikist illa.

„Að svo stöddu er samkvæmt viðbragðsáætlunum gert ráð fyrir að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri annist þá sem leggjast þurfa inn á sjúkrahús. Vegna árstíðar og mögulegrar ófærðar er það inni í áætlunum okkar að geta tímabundið þjónað sjúklingi á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands ef á reynir,“ segir Kristján.

Samkomuhaldarar hugi vel að sóttvörnum

Á meðan vinnslu fréttarinnar stóð var tilkynnt um að samkomubann taki gildi hérlendis aðfaranótt mánudags. Gert er ráð fyrir að það gildi í fjórar vikur um viðburði þar sem fleiri en 100 koma saman. Þar til er gert ráð fyrir fjarlægðartakmörkum, minnst tveimur metrum á milli fólks. Hér eystra hefur árshátíðum nokkurra fyrirtækja og stofnana verið aflýst, auk þess sem Fjarðaál hefur beint þeim fyrirmælum til starfsmanna að þeir sem geti vinni heiman frá sér. Slíkt kann meðal annars að hafa áhrif á stórar verslanir.

Háskólum og framhaldsskólum verður lokað tímabundið. Ákvörðun um grunn- og leikskóla verður í höndum sveitarfélaga. Skilyrði verða sett um stærð hópa og fjarlægð milli nemenda. Nánari upplýsingar og útfærslur á takmörkunum er að vænta síðar í dag.

Áður höfðu Almannavarnir gefið út leiðbeiningar um að samkomuhaldarar sýni ábyrgð, tryggi smitvarnir og aðgengi að hreinlætisvörum og hugi að sínum markhópum. Aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, svo sem hjartveiki og sykursýki, eru taldir í mestri áhættu. Þá er þeim sem eru með flensueinkenni ráðlagt að halda sig heima. Áfram verða gefnar út upplýsingar eftir sem við á.

Heimsóknabann tók gildi um síðustu helgi á hjúkrunarheimilum á Austurlandi og á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands.

Þar til á miðvikudag var fólki bent á að hafa samband við vaktsíma fyrir allt landið 1700, vegna fyrirspurna um kórónaveiruna. Nú er íbúum bent á að hafa samband við sína heilsugæslustöð á dagvinnutíma auk þess sem netspjall er í boði á heilsuvera.is.

Ekki rætt um að loka landshlutum

Landlæknir og sóttvarnalæknir hafa lagt á það áherslu að varúðarráðstafanir miði að því að hefta útbreiðslu veirunnar og hægja á henni til að heilbrigðiskerfið geti undirbúið sig til að ráða betur við hana. Kristján segir Almannavarnanefnd Austurlands hafa nýtt tímann vel. „Við erum ágætlega á veg komin því við byrjuðum snemma. Hversu vel það heldur mun tíminn og reynslan leiða í ljós. Við gerum ráð fyrir að hér komi að endingu upp smit, spurningin er hversu margir smitist og hve alvarlega.“

Frægt er að þegar spánska veikin geisaði hérlendis árið 1918 voru settir verðir á Holtavörðuheiði og Jökulsá á Sólheimasandi sem varð til þess að veikin kom hvorki upp á Austurlandi né Norðurlandi. Kristján Ólafur segir að enn hafi ekki komið til tals að grípa til svo harðra aðgerða. „Það eru til áætlanir um að loka landshlutum ef vá ber að höndum, en þær hafa ekki verið í umræðunni.“

Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar nú klukkan ellefu kom fram að bannið ætti ekki að hafa áhrif á samgöngur milli landshluta. Alþjóðahafnir og flugvellir eru undanþegnar samkomubanninu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.