Sjávarylur sigurvegari Hacking Austurland

Hugmyndin Sjávarylur hlaut fyrstu verðlaun á nýsköpunar- og lausnamótinu Hacking Austurland sem haldið var um síðustu helgi.

Sjávarylur er hugmynd Írisar Birgisdóttur á Djúpavogi. Hún snýst um að nýta heitan sjó sem fellur til frá kassaverksmiðju Búlandstinds til að rækta grænmeti.

Með að selja grænmetið í nágrenninu myndi flutningur sparast auk þess sem hægt væri að útbúa öskjur með tilbúnum réttum úr laxi frá vinnslunni og grænmeti úr gróðurhúsinu.

Samhliða þessu yrði settur upp baðstaður, bæði innandyra í gróðurhúsinu og með sjóböðum utandyra. Þar yrði veitingastaður sem byði upp á afurðir úr héraði, auk vitaskuld grænmetis úr ræktinni.

Sokkin skip

Underwater adventure fékk viðurkenningu sem frumlegasta hugmyndin. Að henni stóðu Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir frá Borgarfirði eystra og hönnuðurinn Alex Grenier.

Hugmyndin er að taka úrelt skip og báta og fjarlægja hættuleg efni og áhöld úr þeim áður en þeim er sökkt í hafið. Með tíð og tíma setjast sjávarlífverur að á skipunum. Hugmyndasmiðirnir telja þetta sjálfbæra leið til að losna við skip. Á þennan hátt er hægt að fylgjast með hvernig sjávarlífið þróast í kringum flökin.

Allt þetta krefst náinnar samvinnu við vísindasamfélagið um leið og ný þekking skapast, sem um leið myndi efla þekkingariðnað á Austurlandi. Þá gæti orðið heillandi fyrir kafara að kafa niður að skipunum sem aftur myndi skapa tekjur í ferðamennsku.

Sterkir þátttakendur

Miðstöð lausnamótsins var í Múlanum í Neskaupstað en þátttakendur nýttu flestir að taka þátt í gegnum netið. Markmiðið var að finna lausnir við áskorunum sem tengdust hafinu á ýmsan hátt.

Byrjað var seinni part fimmtudags og haldið áfram fram á laugardagsmorgunn þegar þátttakendur kynntu verkefni sín fyrir dómnefnd. Í gegnum lausnamótið var boðið upp á fyrirlestur sérfræðinga og leiðsögn.

„Hacking Austurland gekk ótrúlega vel. Við vorum með einstaklega sterkan hóp af þátttakendum en það er það allra mikilvægasta þegar skapa á gott hugarflug nýrra hugmynda. Þau fóru á dýptina í áskoranirnar sem lagðar voru fyrir og til urðu átta skemmtileg og ólík verkefni tengd hafinu.

Að lokum kynntu þátttakendur verkefni sín fyrir dómnefnd og vorum við sammála um að þar hafi metnaður og listrænir hæfileikar ráðið ríkjum. Við Hacking Hekla teymið kveðjum Austurland í skýjunum og þökkum fyrir framúrskarandi móttökur,“ segir Svava Björk Ólafsdóttir, frá Hacking Hekla, sem kom að skipulagningu lausnamótsins.

Frá lokaathöfn Hacking Austurland.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.