VG - kosningar - sept 2021

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með þrjá þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn kemur best út úr nýrri könnun Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) og bætir við sig þingmanni í Norðausturkjördæmi. Þrír flokkar virðast í hættu á að tapa þingmönnum.

Könnun RHA var gerð dagana 26. ágúst til 6. september þar sem sendur var tölvupóstur á úrtak í kjördæminu. Alls bárust 1354 svör. Rúmur helmingur tók afstöðu til stjórnmálaflokkanna en 37,8% sögðust óákveðin og 5% vildu annað hvort ekki svara eða sögðust ekki kjósa.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23% fylgi samanborið við 20,27% fyrir fjórum árum. Þetta gerir það að verkum að flokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum þingmanni, fer úr tveimur í þrjá.

Í könnuninni eru þingsæti aðeins reiknuð fyrir þá níu kjördæmakjörnu þingmenn sem eru í Norðausturkjördæmi en tíunda þingsæti svæðisins er jöfnunarsæti.

Framsóknarflokkurinn heldur sínum tveimur en bætir við sig talsverðu fylgi, mælist með 18,2% en var með 14,34% síðast.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mælist með 14,2% en fékk 19,91% fyrir fjórum árum. Flokkurinn missir annan af tveimur þingmönnum sínum.

Samfylkingin mælist með tæp 11% en fékk 13,87% síðast þegar var kosið. Samkvæmt útreikningum RHA fær flokkurinn einn þingmann í kjördæminu en hefur tvo. Annar þeirra náði jöfnunarsætinu.

Miðflokkurinn fær 9,7% í könnuninni sem þýðir að hann missir helming fylgis síns sem var 18,59% og annan þingmanninn.

Píratar næðu þingmanni inn á ný, mælast með 7,9% en fengu 5,48% síðast. Það þýðir að þeir fá á ný þingmann á svæðinu sem þeir höfðu kjörtímabilið 2016-17.

Sósíalistar fá 7,1%, Viðreisn 4,6%, Flokkur fólksins 3,9% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 0,4%. Viðreisn fékk 2,1% fyrir fjórum árum og Flokkur fólksins 4,26%. Enginn þessara flokka kæmi að kjördæmakjörnum þingmanni. Litlu má þó muna að annar þingmaður VG eða fyrsti maður Sósíalista felli þriðja mann Sjálfstæðisflokks.

Niðurstöður könnunarinnar eru nokkuð á skjön við aðrar kannanir úr kjördæminu sem birst hafa vikur. Á það ber þó að benda að úrtakið í RHA er töluvert stærra en í þeim könnunum sem teknar eru á landsvísu en síðan brotnar niður í kjördæmi. Í þeim eru oft frekar fáir einstaklingar á bakvið niðurstöður úr kjördæminu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.