Sjálfstæðisflokkur og Austurlistinn stærstir í könnun

Útlit er fyrir jafnar og spennandi sveitarstjórnarkosningar í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi þann 19. september ef marka má könnun sem Austurfrétt/Austurglugginn gerðu í lok ágúst.

Sjálfstæðisflokkur og Austurlistinn fá þrjá fulltrúa kjörna í fyrstu sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Samstarf þeirra er eini mögulegi tveggja lista meirihlutinn. Framsóknarflokkur og Miðflokkur fá tvo fulltrúa og Vinstrihreyfingin – grænt framboð einn.

Afar mjótt er þó á mununum. Síðastir inn eru annar fulltrúi Framsóknarflokks og þriðji fulltrúi Austurlista en jafn mörg atkvæði eru að baki þeim. Framsóknarfulltrúinn stendur þó tæpar þegar farið er lengra í útreikningunum. Næstur á eftir þeim er annar fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar og þyrfti listinn að vinna 11 atkvæða af Framsóknarflokki eða bæta við sig tæplega 4% fylgi til að ná öðrum manni á kostnað B-lista.

Ljóst er þó að enn er til mikils að vinna þar sem 11,6% svarenda sögðust annað hvort óákveðnir eða neituðu að svara.

Karlar til hægri, konur til vinstri

Talsverður munur er á fylgi listanna eftir kynjum. Karlar halla sér að Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, 28% segjast kjósa D lista og M-lista og eru yfir 70% kjósenda þessara lista. Konur horfa til annarra framboða. Hjá þeim hefur Austurlistinn mest fylgi, 23%, 16% velja Framsóknarflokk og 15% velja Vinstri græna. 17% kvenna eru enn óákveðin, miðað við könnunina.

Áhugavert er einnig að greina fylgi eftir aldurshópum. Þannig mælist D-listi með yfir 50% fylgi hjá 18-24 ára þar sem B-listi mælist ekki. Staðan er önnur í flokki 65 ára og eldri þar sem B listi er stærstur með 28% en D-listi fær aðeins 5%.

Hjá 25-34 ára mælist Austurlistinn stærstur með 25%, aðeins meira en D-listi. Framboðin eru aftur jöfn, með um 25% hvort, meðal 55-64 ára. Í aldurshópnum 35-40 ára er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 30% en Miðflokkurinn fær 32% atkvæða 45-54 ára.

Fyrirvarar og aðferðafræði

Könnunin var netkönnun opin dagana 25. – 31. ágúst. Hún var kynnt í gegnum Austurfrétt/Austurgluggann. Alls bárust 319 svör sem jafngildir því að 9% þeirra sem voru á kjörskrá í sameiningarkosningunum fyrir ári hafi svarað.

Með þeirri aðferð sem notuð var er ekki hægt að tryggja jafnt úrtak eftir aldri, kyni, búsetu eða öðru. Þannig má setja þann fyrirvara við niðurstöðurnar að karlmenn voru rúm 58% svarenda könnunarinnar en konur tæp 41%. Tæpt 1% skilgreindi sig undir öðru kyni. Kjörskráin í fyrra var öllu jafnari, 51,5% karlar en 48,5% konur.

Þannig nær könnunin heldur ekki að endurspegla aldurssamsetningu kjósendahópsins. Aldurshópurinn 65 ára og eldri er stærstur á kjörskrá, um 22% en ekki nema 12,5% svarenda. Sömuleiðis eru færri svör frá hópnum 25-34 ára miðað við hlutdeild í kjörskrá. Á móti eru fleiri svör frá 35-44, 45-54 og 55-64 ára en kjörskráin gefur til kynna.

Í þriðja lagi voru hlutfallslega fleiri Seyðfirðingar og Borgfirðingar en færri Héraðsbúar sem svöruðu könnuninni miðað við kjósendahópinn.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar víxlaðist fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokks í texta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.