Sjálfsagt að bændur á næstu bæjum nýti jarðirnar

Tveir danskir auðmenn, sem saman eiga fimm jarðir á Fljótsdalshéraði, hyggjast nýta eftirlaunaárin til að verja meiri tíma á Íslandi. Í samfloti við annan félaga eiga þeir hlut í sjöttu jörðinni í Breiðdal. Svisslendingurinn Rudolf Walter Lamprecth hefur nýverið keypt fjórar jarðir í Álftafirði.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umfjöllun um jarðaeign á Íslandi í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Umfjöllunin byggir meðal annars á gögnum frá Austurglugganum/Austurfrétt.

Austurglugginn varð í sumar fyrstur miðla til að greina frá eign og bakgrunni Dananna Mogens Nielsen og Birgir Brix á jörðunum Sleðbrjóti 1 og 2, Breiðumörk 1 og 2 í Jökulsárhlíð og Giljum á Jökuldal. Við úttekt Stundarinnar kom einnig í ljós eign á Hrúthömrum sem liggur við Gil. Alls eru þetta um 7000 hektarar.

Rætt er við bæði Mogens og Birger í blaðinu en þeir koma báðir úr stöndugum matvælafyrirtækjum í Danmörku. Dragsbæk, fyrirtæki Mogens, á í Kjarnavörum og Gæðabakstri og í gegnum þau tengsl hefur Mogens áratuga tengsl við Ísland.

Áhugamenn um veiðar og útiveru

Mogens segist mikill áhugamaður um hvers konar veiðar og hann líti á Ísland sem sitt annað heimili. Þeir félagar leggi mikið upp úr góðum samskiptum við nágranna sína, til dæmis sé sjálfsagt að bændur á næstu bæjum nýti jarðirnar til beitar og heyskapar. „Ég elska Ísland, fólkið og náttúruna og ég lít á Ísland sem mitt annað heimili.“

Birger segist hafa slegið til þegar Mogens hafði samband við hann. Hann lét af störfum sem forstjóri Palsgaard í sumar og ætlar sér að nota frítímann til að verja meiri tíma eystra. Hann hefur áhuga á veiðum og útiveru og segir fjölskylduna með í því.

Athygli hefur beinst að Dönunum eftir fréttir um jarðakaup Jim Ratcliffe og Jóhannesar Kristinssonar á Norðausturlandi, þar sem þeir eiga um 40 jarðir. Í grein stundarinnar er haft eftir Mogens, sem orðinn er 74 ára, að hann sé of gamall til að bæta við sig fleiri jörðum meðan Birger furðar sig á hvers vegna einn maður vilji eiga 40 jarðir. Þar kemur einnig fram að Gil sé til sölu.

Útgerðarkóngur í Breiðdal

Þeir eiga síðan hlut í Eyjum í Breiðdal en aðaleigandinn með 75% hlut er Vinterbörn Aps. Félagið tilheyrir dönsku Vinther Rasmussen fjölskyldunni. Stærsta eign hennar er Kangamiut sem seldur sjávarafurðir frá Grænlandi og víðar úr Norðursjó. Fyrirtækið er eitt hið stærsta á sínu sviði í Danmörku.

Höfuð fjölskyldunnar er Niels Vinther Rasmussen en Birger benti honum á að jörðin í Breiðdalnum væri til sölu. Þeir sitja saman í stjórn Kangamiut Holding, eina dótturfélags Vintherbörn. Fjölskyldan ræður fyrirtækinu ekki ein. Friðrik Mar Þorsteinsson, fisksali í Bretlandi, á 25% í fyrirtækinu og situr einnig í stjórninni.

Lamprecht í Álftafirði

Í úttekt Stundarinnar kemur einnig fram að Svisslendingurinn Rudolf Walter Lamprecht, sem til þessa hefur helst þekktur fyrir jarðaeign í Mýrdal, eigi jarðirnar Geithella 2, Kambssel, Múla 2 og 3 í Álftafirði í gegnum fyrirtækið Heiðarlax ehf. Jarðirnar eiga allar í Geithellnaá.

Tvö ár eru síðan Lamprecht, sem er Svisslendingur, lét af störfum sem framkvæmdastjóri og seldi eign sína í Regal Springs. Fyrirtækið stofnaði hann á miðjum níunda áratugnum til að efla veikar byggðir í Indónesíu og óx það upp í að verða eitt stærsta það stærsta í heiminum í eldi á beitarfiski (talapia) með um 8500 starfsmenn á heimsvísu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.