Sjaldséð fluga fannst á Jökuldal

Flugutegund úr sunnanverðri Evrópu kom óvænt fram á Jökuldal í byrjun mánaðarins. Tæpur áratugur er síðan slík fluga fannst síðast á Norðurlöndum. Vísbendingar eru um að stofninn sé óvenju stór í ár.

Flugan heitir á latnesku Aeshna affinis eða Southern migrant hawker eða Blue-eyed hawker. Um er að ræða drekaflugutegund sem finnst víða í Suður-Evrópu, einkum í löndunum við Miðjarðarhaf, í Norður-Afríku og austur yfir til Kína. Búsvæði hennar hefur hins vegar stundum stækkað og hún sótt norðar á bóginn með hlýnandi loftslagi.

Flugan fannst á Brú á Jökuldal í byrjun verslunarmannahelgarinnar og var henni komið í hendurnar á Páli Benediktssyni á Hákonarstöðum sem kannaði nánar uppruna flugunnar með aðstoð tengdasonar síns sem er líffræðingur.

Sækja norður í ár

Það var síðan Magnus Billqvist, drekaflugusérfræðingur, sem greindi fluguna en hann fer meðal annars fyrir Sænska drekaflugufélaginu. Þar í landi var tilkynnt um slíka flugu í sumar en fundurinn mun ekki vera staðfestur. Síðast sást flugan þar árið 2011. Hún hefur aldrei sést í Noregi og aðeins einu sinni í Finnlandi, árið 2007. Í Danmörku hefur hún örsjaldan komið fram .

Flugan fór víða sumarið 2010 og náði þá fótfestu á Bretlandseyjum. Miklir hitar hafa verið í Evrópu í sumar og samkvæmt upplýsingum frá Billqvist virðist flugan hafa fært sig upp á skaftið í löndum eins og Hollandi, Þýskalandi og Póllandi. Fyllri upplýsingar liggja þó ekki fyrir fyrr en í lok sumars.

Bláa flugan

Alls eru þekktar um 2.500 tegundir af drekaflugum í heiminum. Stærsta tegundin hefur 16 sm vænghaf en sú minnsta 20 mm. Flugan sem fannst á Jökuldal var um 10 sm að lengd en tegundin er í hópi smágerðari drekaflugna. Til eru mörg litaafbrigði af drekaflugum en eins og enska heitið ber með sér er karldýr austfirsku flugunnar með blá augu og á búk, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Utan drekaflugunnar hafa allnokkrir Austfirðingar orðið varir við grænleita flugu með fjórum vængjum. Þar er á ferðinni gullglyrna. Slíkar flugur hafa af og til komið til landsins sem flækingar en óvenju mikið virðist af þeim á svæðinu í ár.

Drekaflugan sem fannst á Jökuldal. Mynd: Páll Benediktsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.