Sjá fram á betri tíma í innanlandsfluginu

Stjórnendur Icelandair vonast til þess að áætlanir í innanlandsflugi séu að komast aftur á rétt ról eftir vandræðagang síðustu vikna og mánaða. Aukin ásókn er í innanlandsflug.

„Flugvélar þurfa að fara í stórskoðanir, svokallaðar C-skoðanir, á 3-5 ára fresti. Þessar skoðanir eru skipulagðar með löngum fyrirvara. Þrjár af fimm vélum okkar í innanlandsfluginu fóru í C-skoðanir í vetur og vor.

Skoðun fyrstu vélarinnar tók helmingi lengri tíma en gert var ráð fyrir. Þar sem allar skoðanir eru hjá sama aðila hefur töfin keðjuverkandi áhrif á hinar. Það sama hefur verið að hrjá okkur og þennan þjónustuaðila sem og heiminn, að aðfangakeðjan er að hiksta. Þetta leiðir til þess að við erum með færri vélar í rekstri sem minnkar sveigjanleikann.

Sem betur fer er síðasta vélin að koma úr skoðun núna um miðjan júlí. Síðustu tvær fara í skoðun næsta vetur. Vonandi sjáum við fram á betri tíma, síðustu dagar hafa gengið mjög vel,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Ekki leiguvélar á lausu

Eins og Austurfrétt hefur greint frá hafa miklar raskanir hrjáð farþega í innanlandsflugi síðan um áramót. Það byrjaði með óstöðugu veðri en síðan tóku við tafir vegna skoðana á vélum og loks miklar bilanir.

„Við horfðum fram á að geta sinnt okkar áætlunum ef allt gengi upp en það hefur mikil áhrif þegar skoðanir dragast svona. Síðan komu upp tæknibilanir, eins og gerist í flugrekstri. Öryggið er alltaf númer eitt og því þarf að bregðast við þessum tæknilegu vandamálum. Vegna tafanna var sveigjanleikinn enginn og það hafði því miður þessi áhrif á leiðakerfið okkar innanlands. Þetta hefur allt neikvæð áhrif á þjónustuna og okkar viðskiptavini, sem okkur þykir leitt,“ segir Bogi Nils.

Aðspurður segir Bogi Nils að skoðað hafi verið að leigja vélar í innanlandsflugið en það ekki gengið eftir. „Okkar fólk skoðaði möguleikann en þessi markaður er erfiður. Það voru ekki vélar á lausu.“

Allt af stað í einu

Á tímabili var í vetur reynt að bregðast við með að fjölga ferðum austur í Egilsstaði með minni vélum. Á sama tíma óx eftirspurn verulega, bæði vegna aukinna ferða almennt eftir að samkomutakmörkunum var aflétt en líka vegna sérstakra verkefna, svo sem kvikmyndataka á Austurlandi.

„Innanlandsmarkaðurinn er mjög kvikur í báðar áttir. Þegar Þórólfur (Guðnason, sóttvarnalæknir) kom í sjónvarpið dróst eftirspurnin saman á örskotsstundu. Eitt af því sem gerði málin erfið í mars var að allt fór af stað á sama tíma,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðarkerfis og sölu hjá Icelandair.

Hnökrar viðbúnir við sameiningu

En það eru ekki bara seinkanir og harður slagur um sæti í vélunum sem ergt hefur þá sem þurft hafa að fljúga með Icelandair innanlands síðustu vikur heldur líka vond upplýsingagjöf, erfiðleikar við að nálgast þjónustu og stífni þegar eitthvað hefur komið upp á. „Við erum að skoða hvað við getum gert til að bæta upplýsingagjöf. Við höfum meðal annars lengt opnunartíma þjónustuvers þegar álagið er mikið,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og þjónustumála.

Fyrir rúmu ári var innanlandsflugið alfarið sameinað öðrum rekstri Icelandair. Viðskiptavinir hafa spurt þeirrar spurningar hvort við það hafi þjónustan versnað. „Við vissum það yrðu hnökrar þegar við fórum í þessa vegferð og þeir hafa komið upp síðustu mánuði. Við erum enn að læra en við fáum líka jákvæða endurgjöf eftir sameininguna því nú eru í boði möguleikar sem ekki voru áður,“ útskýrir Bogi.

Uppbyggilegt samtal við sveitarstjórnarfólk

Bogi, Tómas og Sylvía komu austur í Egilsstaði á fimmtudag og funduðu með sveitarstjórn Múlaþings og framkvæmdastjóra Austurbrúar en sveitarstjórnin fór fram á fund eftir miklar raskanir í innanlandsfluginu að undanförnu.

Bogi sagði daginn hafa verið góðan og fundina gagnlega. „Það var gott andrúmsloft á þessum fundum og við þökkum kærlega fyrir tækifærið til að fá að fara yfir stöðuna. Við fengum að heyra beint frá þeim um upplifunina af þjónustunni, sem hefur ekki verið nógu góð vegna truflana síðustu vikur og við útskýrðum ástæðurnar.

Umræður voru opinskáar og við fengum marga góða punkta sem við vinnum með. Okkar rekstur snýst um góða þjónustu og að uppfylla væntingar viðskiptavina,“ segir Bogi Nils.

Þau segja Icelandair hafa miklar trú á framtíð innanlandsflugs og vilja leggja sig fram um að nýta tækifæri sem þar séu. „Eftir greiningu árið 2019 ákvað stjórn félagsins að innanlandsflugið yrði hluti af kjarnastarfseminni til framtíðar. Við sjáum tækifæri til að tengja saman innanlands- og millilandaflugið til framtíðar. Ef það gengur vel mun það styrkja innanlandsflugið með aukinni tíðni og betri þjónustu sem farþegar okkar sem nýta innanlandsflugið mikið munu njóta góðs af.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.