„Síldarvinnslan skoðar þá möguleika sem upp koma“

Síldarvinnslan gekk á sunnudag frá kaupum á Vísi í Grindavík, sléttum mánuði eftir að félagið keypti stóran hlut í vestfirska fiskeldisfélaginu Arctic Fish. Forstjóri fyrirtækisins segir rökrétt fyrir það að nýta tækifæri sem séu framundan í fiskeldi og bolfiskvinnslu.

„Við erum öflugt félag sem við ætlum að efla og leitum vaxtartækifæra eins og aðrir. Síldarvinnslan skoðar þá möguleika sem koma upp og höfum sýnt með þessum fjárfestingum að við erum með trú á framtíð íslensks sjávarútvegs, fiskeldi og tengdum greinum,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Þann 10. júní var tilkynnt að félagið hefði keypt þriðjungshlut í Arctic Fish. Utanfrá virðast kaupin marka stefnubreytingu hjá Síldarvinnslunni sem til þessa hefur verið mest í útgerð og vinnslu, einkum uppsjávarfiska.

„Síldarvinnslan hefur framleitt mjöl og lýsi sem fóður fyrir eldið. Við teljum mikla framtíð í fiskeldi. Þar er mikilvægt að vel takist til. Því þarf að byggja upp öflug félög til að nýta verðmætasköpunina. Arctic Fish er komið í gegnum ákveðinn upphafsfasa, er með rekstur og leyfi. Okkur bauðst tækifæri til að koma að því.“

Öflug vinnsla í Grindavík

Nú á sunnudag, sléttum mánuði eftir kaupin á fiskeldisfélaginu, var tilkynnt um að Síldarvinnslan hefði keypt Vísi, sem er með útgerð og vinnslu í Grindavík. Félagið hefur sérhæft sig í bolfiskvinnslu en bæði á Reykjanesi sem í Ölfusi eru áform um landeldi.

„Vísir er öflugt félag með langa sögu. Innan þess er mikil þekking og reynsla á bolfiskvinnslu. Undanfarin ár er búið að fjárfesta mikið í öflugri hátæknivinnslu í Grindavík, sem við teljum hægt að nýta betur. Það er gert með auknu hráefni. Í nágrenninu eru að vaxa upp tækifæri, til dæmis mikið laxeldi. Það er hægt að samnýta tækniþekkingu milli vinnslunnar á bolfiskinum og laxinum.

Vísir er líka vel staðsettur, nálægt alþjóðaflugvelli og fleirum flutningsleiðum. Það eru tækifæri í fluginu auk þess sem skipaflutningar eru vaxandi frá Þorlákshöfn með uppbyggingu Smyril-Line auk Faxaflóahafna. Vísir er líka sterkt félag með mikla útgerð og aflaheimildir auk þess sem það er á stóru atvinnusóknarsvæði.

Síldarvinnslan hefur eflt sig í uppsjávarfiski en þar eru takmörkuð vaxtarfæri. Félagið hefur hins vegar setið eftir í vinnslu á bolfiski. Þess vegna held ég að þetta sé rökrétt skref fyrir Síldarvinnsluna,“ segir Gunnþór.

Aukið gagnsæi í fyrirtækjum á markaði

Í tilkynningunni frá því á sunnudag kemur fram að með kaupunum séu aflaheimildir Síldarvinnslunnar komin að lögboðnu hámarki. Gunnþór segir að rétt hafi verið talið að benda á að stjórnendur félagsins væru meðvitaðir um það. Í uppsjávarfiskinum séu hins sveiflur og því óvíst að grípa þurfi til nokkurra aðgerða vegna þessa. „Á síðustu fjórum árum hefur tvisvar ekki verið gefinn út loðnukvóti. Þau ár vorum við innan við mörkin.“

Hann segir þetta einnig eðlilega þróun í kjölfar þess að Síldarvinnslan var skráð á almennan hlutabréfamarkað fyrir rúmu ári. „Þegar Síldarvinnslan kom á markað var ljóst að einhver félög myndu horfa til hennar sem vænlegs kostar til sameiningar. Það hefur verið kallað eftir fleirum sjávarútvegsfyrirtækjum á markað til að auka gagnsæi, því með því eykst upplýsingagjöfin.

Hér er í raun fyrirtæki, sem verið hefur í eigu fjölskyldu, að koma inn á markað sem þýðir aukið gegnsæi á rekstur þess. Í þessu samhengi er samþjöppun gagnrýnd en við verðum að muna að hluthafar Síldarvinnslunnar eru yfir 5000 talsins. Ég heyri ekki annað en fólk taki þessum tíðindum almennt vel.“

Tækifæri fyrir aðrar bolfiskvinnslur

Síldarvinnslan er að auki með bolfiskvinnslu á Seyðisfirði og útgerð í Vestmanneyjum sem gerir skipin Berg og Vestmannaey. „Við höfum ekkert teiknað upp áhrif kaupanna á Vísi á aðra staði. Það geta vel falist í þessu tækifæri fyrir þá.

Á Seyðisfiðri er frystihúsið á hættusvæði og það liggur engin ákvörðun fyrir um framtíð þess, hvorki af eða á. Það er verkefni sem lá fyrir áður en þetta kom upp og þarf að fara yfir, ótengt þessum viðskiptum. Útgerðin okkar í Vestmannaeyjum er öflug og ef eitthvað er þá ætti hún að styrkjast,“ segir Gunnþór, aðspurður um framtíð annarrar bolfiskvinnslu innan Síldarvinnslunnar.

Kaupin á Vísi ganga nú til Samkeppniseftirlitsins en búast má við að einhverjir mánuðir líði þar til ákvörðun þess liggur fyrir. Aðspurður vill Gunnþór lítið gefa upp um hvort frekari stórfjárfestingar séu væntanlegar á næstunni. „Ég held að það sé ekki tímabært að gefa neinar stórar yfirlýsingar. Þetta eru stór viðskipti núna sem þarf að vinna úr en ég sannfærður um þetta eru góð og farsæl skref.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.