Orkumálinn 2024

Síldarvinnslan kaupir jörð til skógræktar

Síldarvinnslan hefur fest kaup á jörðinni Fannardal í Norðfirði og er áformað að nýta hana til skógræktar. Með skógræktinni mun fyrirtækið hefja bindingu kolefnis á móti þeirri kolefnislosun sem það veldur með starfsemi sinni.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að landið sem nýtt verður til skógræktarinnar er 300-400 hektarar og verður fljótlega gerð áætlun um gróðursetningu.

„Fyrir utan skógræktina eru einnig möguleikar til vatnsaflsvirkjana á jörðinni. Fjórar ár eru í Fannardalslandi og eru þær vatnsmiklar. Þá ber að nefna að leitað hefur verið að heitu vatni í landi Fannardals og eru einhverjar líkur á að frekari leit geti skilað árangri. Einnig skal þess getið að jörðin er við vatnsverndarsvæði Norðfirðinga. Stefnt er að því að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógrækt ríkisins.“ segir á vefsíðunni.

Ennfremur segir að Síldarvinnslan hefur markvisst unnið að verkefnum á sviði umhverfismála á undanförnum árum. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja hefur verið á dagskrá og einnig hafa verið keypt ný og sparneytin skip þannig að olíunotkun fyrirtækisins hefur minnkað mikið. Nýjasta verkefnið er öflugur landtengingarbúnaður við fiskiðjuverið í Neskaupstað sem gerir það mögulegt að skipin noti einungis raforku þegar landað er. Sams konar búnaði er nú verið að koma upp við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Nú bætist síðan við hin fyrirhugaða skógrækt í Fannardal.

„Hjá Síldarvinnslunni eru miklar vonir bundnar við skógræktarverkefnið. Auk þess að skógurinn gegni hlutverki á sviði kolefnisbindingar er mögulegt að gera Fannardal að eftirsóknarverðu útivistarsvæði sem allir geti notið. Nú verður ráðist í að skipuleggja landið og ákveða hvenær skógræktarverkefnið hefst. Hér á heimasíðunni verða fluttar fréttir um framgang verkefnisins á komandi mánuðum,“ segir einnig.

Fannardalur er innsta jörðin í Norðfjarðarsveit, um 10 kílómetra inn af Norðfjarðarbotni. Jörðin er innst í Norðfjarðardalnum en innsti hluti dalsins er álitinn sérstakur dalur og ber heitið Fannardalur.

Mynd: svn.is/Smári Geirsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.