Síldarvinnslan fékk fimmta hæsta styrkinn út Matvælasjóði

Síldarvinnslan í Neskaupstað fékk fimmta hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr Matvælasjóði nýverið. Sjö prósent styrkfjárins kom í verkefni sem að mestu verða unnin á Austurlandi.

Síldarvinnslan fékk rúmar 19 milljónir í verkefnið „Rauða gullið“ sem miðar að þróun á veiðum og vinnslu rauðátu. Sjóðnum er skipt í fjóra flokka og var verkefnið í flokknum afurð, sem miðar að þróun afurða.

Jurt ehf., sem ræktar wasabi í Fellabæ, fékk 10,6 milljónir í stafræna markaðssetningu í flokknum fjársjóður, sem styrkir markaðssetningu.

Tveir styrkir komu austur úr flokknum Kelda, sem miðar að því að styðja við rannsóknir. Annars vegar fékk Matís 8,6 milljónir þróun nýrra lausna á merkingum matvæla en hins vegar fékk Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 12,2 milljónir í að rannsaka bakteríufangara gegn fiskabakteríum. Bæði verkefnin eru unnin í samstarfi við einkaaðila á svæðinu en ekki er tekið fram í yfirliti hverjir þeir eru.

Enn fremur var veitt styrkjum um verkefni sem unnin verða víða um land, til dæmis athugunar á endurnýjun fiskiskipaflotans á kolefnisspor undir handleiðslu Matís, rannsóknar Landbúnaðarháskólans á leiðum til aukinnar matvælaframleiðslu og stuðningi Samtaka smáframleiðenda við matarfrumkvöðla.

Matvælasjóði er ætlað að stuðla að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Úthlutað var úr honum í fyrsta sinn í lok árs 2020. Að þessu sinni var úthlutað tæpum 567 milljónum til 64 verkefna en 273 umsóknir bárust. Næst verður úthlutað vorið 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.